143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Herra forseti. Mikil spenna, umræður og samhugur er í samfélaginu með landsliði okkar í handbolta. Mig langar hér að vekja athygli á stórkostlegu íþróttaafreki sem Aníta Hinriksdóttir vann á sunnudaginn sem hefur kannski farið fram hjá fólki vegna handboltans. Aníta setti glæsilegt Íslandsmet í sínum aldursflokki í 800 metra hlaupi. Þrátt fyrir að með henni hlypu tvær erlendar viðurkenndar hlaupakonur tók hún strax rækilega forustu í hlaupinu og segja má að hún hafi hlaupið keppnislaust. Aníta hefur nú þegar skipað sér í sveit allra efnilegustu ungra kvenna í heiminum í 800 metra hlaupi sem mun þó vera með erfiðustu íþróttagreinum frjálsra íþrótta.

Það er vissulega brýnt að efla almenningsíþróttir svo sem unnt er en þegar upp koma stjörnur eins og Aníta ber þjóðinni að hlúa alveg sérstaklega að þeim. Fordæmi eins og Aníta gefur er ákaflega mikils virði og eykur áhuga á íþróttum og hvetur aðra til þátttöku. Sérstaklega er ástæða til að hafa það í huga að brottfall unglingsstúlkna úr íþróttum er verulega meira en stráka á sama aldri þannig að fordæmi Anítu hefur tvöfalt gildi. Aníta er kynsystrum sínum og þjóðinni allri til sóma og á það fyllilega skilið að henni séu sköpuð hagfelld skilyrði til að ná sem bestum árangri í íþrótt sinni.