143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að sérstök nefnd vann að skýrslu um lagningu sæstrengs til Evrópu og skilaði hún af sér sl. vor. Hæstv. ráðherra iðnaðarmála Ragnheiður Elín Árnadóttir flutti skýrslu um það og var umræða í þinginu um skýrsluna í nóvember. Fram kom í máli ráðherra að það væri ekki þannig að hún kysi ekki að fara eftir tillögum eða niðurstöðum þessarar verkefnastjórnar sem vann þetta heldur taldi ráðherra eðlilegt að þingið tæki málið til meðferðar og skilaði sjálfstæðri niðurstöðu á því hvernig málsmeðferð yrði fram haldið. Það kom fram í máli mínu að ekki standi til að svæfa málið í þinginu, af því að spurt var á sínum tíma hvort það stæði til, og hef ég ítrekað það. Þannig er staðan. Nefndin hefur að mínu mati núna unnið málið svo til alveg til loka og á ég von á því að það verði afgreitt á næstu dögum frá nefndinni. Þegar liggja fyrir drög að nefndaráliti og mun það verða afgreitt mjög fljótlega frá nefndinni, reikna ég með, einhvern næstu daga.

Það eru margir óljósir þættir í þessu máli eins og greinilega kemur fram í þeirri skýrslu sem var hér lögð fram. Mat mitt er einfaldlega það að í dag séu ekki efnislegar ástæður til að vera mjög fylgjandi því að leggja sæstreng (Forseti hringir.) yfir til Evrópu. Að sama skapi (Forseti hringir.) eru ekki efnislegar ástæður til að vera á móti því. Þetta er mál (Forseti hringir.) sem þarf að skoða (Forseti hringir.) miklu betur.