143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Guðlaug Elísabet Finnsdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Samfélög byggja á gagnkvæmum sáttmála manna á milli. Sameiginleg gildi eru hornsteinar samfélags. Gildi eru eins og áttavitar sem fólk getur ratað eftir. Tærasta birtingarmynd þessara gilda ætti að og mætti gjarnan finna í miðlun þekkingar milli kynslóða. Starf skólans þar sem ég vinn grundvallast á því lífsviðhorfi að hverju barni skuli búin námsskilyrði svo það megi þroskast og dafna og útskrifast sem sjálfstæð, sterk og lífsglöð manneskja. Skólinn er fyrir alla og engu barni er ofaukið.

Öll virðumst við eiga sameiginlegar væntingar og þrár, reynslu og vilja til að fylgja þeim eftir. Veruleikinn er ekki fasti, hann er eins og við sjáum hann frá okkar sjónarhorni og verður það sem við mótum hann til að verða. Við þurfum að átta okkur á því hvers konar fyrirbæri samfélag er og hver við sjálf erum.

Átök eru allri þróun nauðsynleg. Án átaka verður engin framför. Þeir sem sýna þroskaða hugsun við að leysa ágreining eru líklegir til að sýna einnig þroskaða hegðun í daglegum samskiptum. Átök ættu ekki að ógna okkur, heiðarleg átök ættu þvert á móti að hjálpa okkur að hugsa út fyrir rammann, sjá heiminn í víðara samhengi. Nemendum er kennt að þeir sjálfir geti fundið nýjar leiðir og lausnir á vandamálum í umhverfi sínu. Allir í samfélaginu mættu hugsa meira á þennan hátt en alltaf er mögulegt og oft nauðsynlegt að hugsa hlutina upp á nýtt, finna nýjar leiðir og nýjar lausnir.

Virðulegur forseti. Aðeins í heiðarlegri samræðu þar sem tekist er á í kærleika með gagnkvæmri virðingu og vilja til að læra hvert af öðru munum við þróa okkar grunngildi sem við viljum starfa og lifa eftir sem samfélag.