143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áður á þessum vettvangi tvisvar sinnum fjallað um heilsufræði karlmanna, heilbrigðismál karlmanna, þ.e. um tæki til aðgerða gegn blöðruhálskrabbameini. Ég vil í dag fara aðeins lengra út og minna á að konur sinna heilbrigði sínu aðeins betur en við karlar. Konur eru kallaðar til skimunar eftir brjósta- og leghálskrabba en karlmenn eru ekki kallaðir til neinnar skimunar á þeim krabbameinum sem þá kunna að hrjá.

Ég sá í gærkvöldi viðtal við yfirlækni á Landspítalanum þar sem hann fjallaði um ristilkrabba og fann grein eftir þann sama lækni þar sem hann segir:

„Á tímum sem þessum höfum við ekki efni á að skima ekki.“

Ég geri þau orð að mínum. Ég tel að við karlmenn þurfum að taka okkur á og gera ráðstafanir til að hafin verði skimun eftir ristilkrabbameini hjá körlum. Tíðnin virðist vera hærri hjá körlum en konum. Ég er ekki að segja að ekki sé þörf á slíkri skimun hjá konum en konur eru bara duglegri en karlar. Þeir læknar sem ég hef talað við vísa til þess að hér kunni að verða faraldur á ferð vegna lífsstíls og það má ekki gerast. Við höfum efni á jafn einföldum aðgerðum og þessum.