143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

Fiskistofa og vinnubrögð stofnunarinnar.

[14:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni og ráðherra; þingmanni fyrir að taka þetta mál upp og ráðherranum fyrir hans svör. Þetta er góð og mikilvæg umræða og fullt tilefni til hennar miðað við dæmin sem nefnd voru. Sé lýsing hv. þingmanns rétt er fullt tilefni fyrir ráðherra að taka málið til alvarlegrar skoðunar eins og mér finnst að hann hafi sagt í ræðu sinni.

Samkvæmt stjórnarskrá er óheimilt að ráðast í húsleitir og haldleggja gögn nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Af ræðu hv. þingmanns að dæma er ljóst að starfsmenn Fiskistofu geta ráðist í slíkar aðgerðir án dómsúrskurðar. Ég tel slíkt fyrirkomulag gagnrýnisvert í ljósi þeirra miklu inngripa sem slík úrræði eru. Ég ætla að lesa 71. gr. aðallaga okkar, stjórnarskrárinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.“

Virðulegi forseti. Ég tel eðlilegt að þvingunarúrræðum Fiskistofu verði afmarkaður sami rammi og flestra annarra eftirlitsaðila þannig að þegar grunsemdir vakna hjá starfsmönnum Fiskistofu um brot gegn lögum beri stofnuninni að snúa sér til héraðsdóms og fá samþykki dómstóls fyrir húsleit og haldlagningu gagna.

Virðulegi forseti. Þetta er, eins og ég segi, brýnt mál að ræða og fullt tilefni að taka það til umræðu. Ég þakka fyrir það.