143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

opinber skjalasöfn.

246. mál
[15:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að samkvæmt þessum lögum er hægt að skjóta ákvörðunum um aðgengi að t.d. skjölum til úrskurðarnefndarinnar. Það er mikilvægt réttaröryggi fyrir borgarana að sú leið sé opin, þannig að það sé ekki í valdi eins manns að lokum eða þeirrar stjórnarnefndar sem hér er nefnd að taka slíkar ákvarðanir.

Það er síðan alltaf álitamál hvernig best er haldið á hvað varðar faglega þáttinn. Ef um er að ræða faglega þáttinn er það sambærilegt við t.d. Árnastofnun og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, þ.e. þegar við horfum á hin faglegu sjónarmið. Það sem aðgreinir þetta safn frá þeim söfnum sem hér eru nefnd — og sem er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, það er ekki sami hluturinn — er þetta með aðgengið, af því að um er að ræða persónulegar upplýsingar manna. Það er aðgengið og trygging fyrir því að menn séu þar varðir og hafi líka um leið varinn rétt til þess að sækja upplýsingar og þá er úrskurðarnefndin leiðin sem menn hafa. Það er ólíkt því sem um er að ræða með þær stofnanir sem ég nefndi. Hvað varðar, svo að ég endurtaki enn og aftur, faglega þáttinn og annað slíkt er það með sama hætti og með þessar stofnanir.