143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[15:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina um PISA og fá tækifæri til að ræða þetta mál lítillega hér. Um leið vil ég vekja athygli á því að þetta er gríðarlega umfangsmikil skýrsla, þ.e. þau gögn sem liggja að baki PISA. Þetta er ítarleg og vönduð rannsókn. Þetta er gott innlegg og mikilvægar upplýsingar sem koma þarna fram, gott efni til umræðu og framþróunar, en við skulum líka gera okkur grein fyrir takmörkunum PISA, þ.e. þetta svarar ekki öllum spurningum og eftir sem áður þurfum við að leggja mat á hvað við teljum vera forgangsverkefni í skólakerfi okkar. Þetta er aðeins einn mælikvarði.

Á sama tíma er ástæða til að vekja athygli á að þetta er eina alþjóðlega samanburðarmælingin á því sem við erum að gera í menntakerfinu, sem fram fer hér á landi. Þar af leiðandi megum við alls ekki vanmeta þessa könnun.

Þegar svona niðurstöður koma er tilefni til að spyrja, ræða, leita lausna og hugmynda um það hvernig við getum gert betur. Það er jafn mikilvægt að við setjum okkur ekki í einhver dómarasæti og komum með einhverjar fljótfærnislegar ályktanir eða fullyrðingar. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það þarf að vanda alla umfjöllun og viðbrögð, vegna þess að menntakerfið er þannig að það þarf að vinna hægt og bítandi að betrumbótum og lagfæringum.

Það verður líka að taka það fram þegar menn skoða niðurstöðurnar að þarna er verið að beina sjónum að sérstökum þáttum. Núna var það einkum stærðfræðin sem var samanburðarhæf við það sem var 2003. Jafnframt var lesskilningur og læsi í náttúrufræði og þrautalausnir líka skoðaðar þarna og geta nemenda varðandi þekkingu á þessum sviðum.

Það vekur okkur til umhugsunar um að stór hluti af skólakerfinu okkar eða menntakerfinu er ekki á þeim sviðum sem verið er að mæla. Þess vegna verðum við að leyfa okkur að spyrja: Er verið er að mæla mikilvægustu hlutina? Eru þetta réttu mælikvarðarnir? Skiptir form á mælingum og annað slíkt mestu máli? Hvað með skapandi þætti? Hvað með verklega færni? Handmennt, listgreinar, tónlist, heimilisfræði, íþróttir, lífsleikni og lýðræðislega hugsun, eins og hæstv. ráðherra benti á, tungumálakunnáttu, tækifæri til þess að lesa í nútímatækni og nota hana? Allt eru það atriði sem ekki eru mæld í PISA-könnuninni.

Þetta er ekki sagt til þess að gera lítið úr könnuninni, þvert á móti. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hver takmörkunin er.

Það er ánægjulegt að sjá í þessum niðurstöðum en um leið umhugsunarvert að fram kemur í niðurstöðunum fyrir 2012 á Íslandi að skólabragur og viðhorf nemenda til náms hafa batnað verulega frá því sem áður var, bekkjarandi er betri, meiri ánægja er með kennara o.s.frv. Það ættu að vera góðar forsendur til þess að gera mun meiri kröfur en við gerum í dag til þess að ná betri árangri.

Það er líka mjög athyglisvert að sjá hversu árangurinn hefur slaknað í samanburði við okkur sjálf. Það er forvitnilegt að leita skýringa á því hvers vegna Norðurlöndin öll fara sömu leið. Við höfum verið á svipuðu stigi, Norðurlandaþjóðirnar, þ.e. Ísland, Noregur og Danmörk. Finnland hefur skorið sig úr, en Svíþjóð hefur haft lökustu stöðuna og er núna á hraðri niðurleið í þessari könnun miðað við það sem áður var. Það hlýtur að vekja spurningar um mælikvarðann en jafnframt um hvað er að gerast á þessu svæði og í hverju það felst.

Það er líka mjög mikilvægt að við ræðum alvarlega mismuninn á Reykjavík og höfuðborgarsvæðinu annars vegar og hins vegar landsbyggðinni og þeirri þróun sem þar hefur átt sér stað. Þessi mismunur hefur verið mikill frá upphafi og landsbyggðin hefur staðið sig mun verr. Hver er ástæðan fyrir því? Er það formið aftur? Er eitthvað í kennsluumhverfinu þar? Eða kannski það sem er að mínu áliti meginskýringin, væntingarnar og kröfurnar, þ.e. tilætlunin um að maður eigi að standa sig vel og að það skipti máli að læra?

Það er athyglisvert líka að sjá að ákveðin svæði hafa breyst. Við sjáum t.d. að afturförin í þessari könnun miðað við eldri kannanir er minni í skólum á Vesturlandi en annars staðar. Er einhver skýring á því? Hvað gera þeir öðruvísi en aðrir skólar úti á landsbyggðinni?

Ég gæti haldið áfram. Ég mun fá tækifæri til að koma hér aftur í fimm mínútna ræðu síðar og langar til að skoða kynjamuninn. Þar hafa orðið kollsteypur. Á sínum tíma skoruðu stelpurnar mun betur í stærðfræði, við vorum eina þjóðin í heiminum þar sem þannig var háttað. Nú er það horfið aftur. (Forseti hringir.) Við eigum að nýta PISA, þ.e. að spyrja spurninga og reyna að finna nýjar lausnir og nýjar leiðir til að ná betri árangri.