143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu, sem ég tel að hafi verið mjög gagnleg.

Ég vil taka undir það sem fram hefur komið hér og legg áherslu á að PISA-rannsóknin mælir ekki alla hluti. PISA-niðurstaðan er ekki einhver einn allsherjarmælikvarði á íslenska skólakerfið. Það sem er mikilvægt að átta sig á er að þeir sem hafa hannað þetta próf hafa aldrei haldið því fram að það sé þannig. Í sjálfu sér þurfum við því ekki að tala um það að prófið mæli ekki allt af því að það liggur bara fyrir, en það mælir ákveðna þætti, ákveðna færni. Og það er alveg rétt sem hér var sagt í umræðunni áðan að við lifum á tímum þar sem fram undan eru miklar breytingar á okkar samfélagi, tæknibreytingar, en ég held þó að ákveðnir lykilþættir eins og t.d. það að geta lesið upplýsingar, lesið sér til gagns, eins og það heitir, það að átta sig á grundvallaratriðum í stærðfræði, muni áfram skipta verulega miklu máli.

Ég tek sem dæmi framhaldsnám. Þegar krakkar ljúka grunnskóla og fara inn í framhaldsskólann þurfa þau að fást við texta og lesa sér til gagns. Skyldi nú vera samhengi á milli þess hvernig sú þróun hefur verið og t.d. þeirrar staðreyndar að einungis 44% af íslenskum nemendum sem fara í framhaldsskólann ljúka prófi frá framhaldsskóla á tilsettum tíma, einungis 44%? Þegar sex ár eru liðin frá því að nám hefst hafa einungis 60% klárað, 40% hafa ekkert próf klárað. Skyldi vera samhengi þarna á milli, virðulegi forseti?

Það er líka alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að við sjáum það á mælingum að börnunum líður betur í skólanum, og það er gríðarlega mikilvægt. Á því getum við og eigum að byggja. En það má ekki nálgast þessa umræðu þannig að það sé eitthvert val á milli þess annars vegar að börnunum líði vel og þau séu skapandi og frjó og hins vegar að þau nái tökum á ákveðinni grunnfærni. Þannig er það ekki. Þeim þarf að líða vel, við þurfum að berjast gegn einelti, þau þurfa að vera skapandi og þau þurfa að hafa tök á grundvallarþáttum eins og læsi.

Enn og aftur: Setji nú hver sig í spor 16 ára stráks eða stelpu sem ekki hefur tök á þessu. Það er auðvelt að tala um þetta allt að því abstrakt, ef svo má segja, virðulegi forseti, en það er annað að lifa með því og eiga síðan fram undan skólagöngu og hafa ekki tök á þessu. Það er jú eitt af stóru markmiðunum með grunnskólakerfinu okkar að jafna stöðu, tryggja að allir fái sömu tækifæri í lífinu. Og sá sem ekki getur lesið sér til gagns hefur ekki sömu tækifæri að öllu jöfnu, í það minnsta, eins og sá sem það getur. Hér er ég ekki að tala um lesblindu, ég er bara að tala um það þegar krakkar sem hafa öll tækifæri og allar forsendur til þess að geta lesið sér til gagns gera það ekki.

Við skulum líka muna að það er ekki samanburður á milli landa sem skiptir hér mestu máli þó að hann skipti máli. Það sem skiptir máli er hvernig okkur miðar miðað við okkur sjálf. Okkur hefur farið aftur frá árunum 2000 og 2003 þegar horft er til stærðfræði og lesturs. Það er mjög mikilvægt að horfast í augu við það.

Það er rétt sem hér hefur komið fram og ég er mjög ánægður með að heyra að það er ekki bara skólinn sem hér er undir, það er ekki bara það sem gerist í kennslustofunni. Ef krakkarnir lesa ekki heima eða æfa sig ekki í lestri munum við aldrei ná árangri í þessu. Þess vegna er þetta sameiginlegt verkefni skólanna og heimilanna. Ég legg áherslu á þetta af því að það er mjög mikilvægt. Ég tek sem dæmi tónlistarkennslu. Ef maður mundi bara æfa sig í tónlistartímanum en aldrei heima mundi ganga heldur hægt að ná tökum á því hljóðfæri.

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni sem sagði að hér væri um upphaf að ræða og að hér væri um tækifæri að ræða. Ég lít svo á. Það er tækifæri í þessu fyrir okkur núna til þess að ná góðri sátt (Forseti hringir.) í samfélaginu um það að við getum gert betur og eigum að gera betur og verðum að gera betur. Og það er enn og aftur ekki bara skólinn, það erum við öll. Öll heimilin, foreldrarnir og (Forseti hringir.) allir aðstandendur barnanna. Þetta er okkar sameiginlega verkefni.