143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Nýlega birtist frétt á Vísi og fleiri stöðum út af því að símfyrirtæki hafði veitt lögreglu aðgang að gögnum sem átti að vera búið að eyða. Það er ekki ósvipuð frétt og við þekkjum og var mikið í umræðunni fyrir nokkru.

Nú er þetta að sönnu, ef ég skil fréttina rétt, gömul frétt, þ.e. þetta gerðist árið 2012 og kemur skýrt fram að þetta fyrirtæki hafi engin gögn undir höndum í dag sem það á ekki að hafa. Þetta hlýtur hins vegar að valda áhyggjum vegna þess að það er alveg ljóst að fyrirtækið hefur verið meðvitað um þetta og meðvitað átt gögn í mun lengri tíma en lög gera ráð fyrir. Við þekkjum núna sömuleiðis að það er auðveldara að halda utan um allt sem snýr að símtölum og gögnum og öðru slíku, nálgast það, njósna um og hlera en áður var. Við sjáum ýmsar fregnir frá útlöndum sem sýna að jafnvel ríkisstjórnir eða stofnanir á þeirra vegum stunda skipulegar njósnir hvað ýmis samskipti fólks varðar.

Það hefur ekki vantað fjármagn til þeirra stofnana sem eiga að hafa eftirlit með þessu, þvert á móti, ef menn skoða þróun fjármála undanfarin ár. Ég treysti því að við skoðum þetta ekki bara hjá þeim stofnunum og fylgjum því eftir heldur einnig að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoði hvernig er farið með þessi mál og hvort eitthvað sem við sjáum gerast í öðrum löndum (Forseti hringir.)og hneykslumst á geti verið í gangi hér á landi.