143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Menntamálin hafa verið til umræðu hér á Alþingi og síðast í gær flutti hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson munnlega skýrslu um stöðu Íslands í PISA-könnuninni sem felur í sér alþjóðlegan samanburð á námsgetu grunnskólabarna. Hæstv. ráðherra tekur niðurstöður skýrslunnar alvarlega og jafnframt þeir hv. þingmenn sem tóku þátt í umræðum um skýrsluna.

Þverrandi lesskilningur er sláandi þegar rýnt er í niðurstöður skýrslunnar.

Í hinu stóra samhengi er menntun grundvöllur hagvaxtar og bættra lífskjara og er reyndar margviðurkennt og staðfest í lærðum greinum og rannsóknum. Grunnmenntun er jafnframt talin forsenda frumkvöðlastarfsemi, tækniframfara og aukinnar framleiðni sem aftur er sett í samhengi við hagvöxt og lífskjör.

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það með hæstv. ráðherra að boða til aðgerða og ég vona innilega að þær feli í sér grundvallarbreytingar. Hæstv. ráðherra benti á að fjárframlög til skólanna væru há og stöðugildin mörg. Við eigum sannarlega öfluga skóla og öfluga kennara. Við ættum því að vera opin fyrir nýjustu rannsóknum á þessu sviði og kerfisbreytingum.

Ég ítreka ábendingu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um rannsóknarstarf Hermundar Sigmundssonar, prófessors við Háskólann í Þrándheimi, sem hefur m.a. í samvinnu við vísindamenn í Harvard og Cambridge bent á nýjar leiðir og breytt skipulagi í skólastarfi. Þar er lögð áhersla á breytt skipulag skóladagsins með því að blanda saman hreyfingu og grunnþáttum bóknáms, þ.e. lestri og stærðfræði. Þannig megi bæta lestrarkunnáttu, minnka sérkennsluþörf, spara fjármuni og bæta grunninn að öllu öðru námi. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson, menntamálayfirvöld, skólana og kennara til að skoða slíkar skipulagsbreytingar.