143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Undanfarið hafa komið fram upplýsingar um nauðungarvistun geðsjúkra. Verklag við nauðungarvistun á Landspítalanum þvingar aðstandendur geðsjúks fólks til að skrifa undir beiðni um sjálfræðissviptingu, oft með skelfilegum afleiðingum fyrir viðkomandi fjölskyldur.

Á visir.is þann 16. desember sl. er viðtal við mann sem fjórum sinnum hefur verið sviptur sjálfræði af móður sinni. Hann segir þar meðal annars, með leyfi forseta:

„Það verður ótrúlegur trúnaðarbrestur á milli fjölskyldumeðlima og það getur haft alvarleg áhrif á bataferlið. Þú vilt ekki hafa einhvern nálægt þér sem frelsissviptir þig,“ segir þessi ágæti maður.

Það fyrirkomulag sem hér er haft um sjálfræðissviptingu þekkist ekki erlendis. Fjölskyldur eru ekki neyddar til þess að taka svo sársaukafullu ákvarðanir heldur eru það geðlæknar í viðkomandi löndum.

Síðast í morgun kom fram kona í morgunútvarpi Rásar 2 sem var svipt sjálfræði 2010. Hún segist innst inni vera reið og sár og finnst hafa verið gengið fullharkalega til verks. Hún segist ekki treysta fjölskyldu sinni eða læknum eftir að þetta átti sér stað. Þessi ágæta kona var meðal annars hand- og fótjárnuð þegar hún var flutt nauðungarflutningi á geðsjúkrahús.

Það hlýtur að vera krafa að heilbrigðisstéttir, þ.e. geðlæknar í þessu tilfelli, taki slíkar ákvarðanir en þvingi ekki fjölskyldur til að taka ákvarðanir sem geta haft víðáttulangar og erfiðar afleiðingar í för með sér og stuðlað að sundrungu í fjölskyldum.