143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að taka saman fyrir alþjóð upplifun mína á þessu bankaskattsmáli, frískattamarki, MP-bankamálinu. Umræður um frískattamarkið á bankaskattinum á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á mánudaginn sýndu enn og aftur þörfina á að skrásetja allt ákvörðunarferli hins opinbera og gera það opnara almenningi. Þar bar nefndarmönnum og starfsfólki fjármálaráðuneytisins hvorki saman um hver hefði stungið upp á þessum 50 milljörðum sem upphæð frískuldamarksins né hvort það hefði verið rætt á fundi nefndarinnar 11. desember. Til að leiða hið sanna í ljós, eða það vona ég, lét ég bóka í nefndinni beiðni um upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu hvað þetta varðar.

Það sem er hins vegar aðgengilegt á vef Alþingis er það að markmið upphaflega bankaskattsins, sem lagður var á 2010, var að mæta kostnaði ríkisins vegna hruns bankanna ásamt því að minnka áhættusækni fjármálafyrirtækja með því að leggja á 0,041% sérstakan skatt á skuldir þeirra og réttlæta með kerfisáhættu sem þeir skapa. En samt voru þrotabúin ekki skattlögð, þau voru ekki inni í skattinum.

1. október á þessu ári er, í skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar, skatturinn hækkaður svona 3,5 sinnum. Fjármálafyrirtæki í slitameðferð eru gerð skattskyld. 16. desember er 50 milljarða frískattamarkið ásamt hækkun skattsins, örlítil, til að greiða fyrir þennan afslátt sett fram. Næstu tvo daga eru nefndarmenn minni hlutans ekkert á móti þessu, sumir eru með því. En 19. desember greiða allir nefndarmenn efnahags- og viðskiptanefndar atkvæði með 50 milljarða frískattamarkinu. En samt sitja þeir hjá varðandi þessa litlu hækkun til að borga fyrir skattinn en daginn eftir eru allir komnir með og eru tilbúnir að hækka skattinn, tvöfalda skattupphæðina, og þá eru þingmenn allra flokka utan Vilhjálms Bjarnasonar með þessu.

Það sem má læra af þessu er að við þurfum að vera með upptökur á umræðum í þingnefndum (Forseti hringir.) til að hægt sé að sannreyna hver sagði hvað. (Forseti hringir.) Ef þessar upptökur væru aðgengilegar almenningi gæti almenningur komið að ríkisstjórninni líka, komið að (Forseti hringir.) og fylgst með, haft eftirlit með okkur þingmönnum. Á því grundvöllum við okkar lýðræðisríki, að haft sé eftirlit með okkur.