143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[15:51]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Svört atvinnustarfsemi hefur verið töluvert í umræðunni og er það kannski ástæða þess að við erum hér að ræða þetta mál. Þar eru iðngreinarnar gjarnan undir, ekki bara ferðaþjónustan sem slík heldur, eins og var komið inn á, byggingariðnaður, bifvélaiðnaður o.fl. Gögn frá bæði ríkisskattstjóra og Samtökum atvinnulífsins, eins og hefur komið fram, sýna að svört atvinnustarfsemi hefur vaxið. Það er talið að þetta svokallaða svarta hagkerfi velti um það bil 14 milljörðum á ári. Ef við setjum það í eitthvert samhengi, t.d. við fjárlagaumræðuna sem við vorum í ekki alls fyrir löngu, er þetta um það bil það sem var reiknað með að fá út úr veiðileyfagjaldinu eða það sem við þurftum að setja inn í Íbúðalánasjóð. Ef við miðum það við meðallaun verkafólks eru þetta í kringum 3.200 störf. Þetta eru engar smáfjárhæðir sem við erum að ræða og ég tek undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, það hefði verið gott að hafa þetta til viðbótar í fjárlagagerðinni. Ég held því að við eigum að efla eftirlitsiðnaðinn sem svo hefur verið nefndur.

Af þessu leiðir að svört atvinnustarfsemi hefur auðvitað slæm áhrif á samfélagið okkar í heild og kemur illa niður á þeim sem taka þátt í henni. Eins og hér var komið inn á varðandi þá sem afla sér ekki tilskilinna réttinda, t.d. atvinnuleysisbóta, orlofs eða lífeyrissjóðsgreiðslna, eða annarra þeirra réttinda sem fólk öðlast með því að greiða skatta — ef viðkomandi lendir til dæmis í vinnuslysi er hann ekki tryggður þar sem hann hefur ekki lagt í sameiginlega sjóði.

Það eru viðurlög við svörtu vinnunni því að þetta eru jú skattsvik. Því miður hefur gengið illa að innheimta slíkt og þá er spurningin hvort þurfi að breyta einhverju í lagaumhverfinu. Auðvitað eru alvarlegustu afleiðingarnar þær að ekki kemur neitt í ríkissjóð því að það bitnar á allri þjóðinni og þá höfum við minni peninga til að reka ríkissjóð og þjónustu ríkisins.

Svört atvinnustarfsemi grefur undan innviðum samfélagsins, að greiða ekki skatt þýðir í rauninni það sama og að stela frá öllum samborgurum sínum. Við þurfum að útrýma því hugarfari að það sé í lagi að svíkja undan skatti því að svört atvinnustarfsemi þrífst ekki nema við (Forseti hringir.) eða einhver annar seljum og viljum kaupa slíka þjónustu.