143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[15:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað áhyggjuefni að svört atvinnustarfsemi hefur verið að aukast í samfélagi okkar á undanförnum árum. En var það ekki fyrirséð? Er ekki margbúið að benda á það úr þessum ræðustól og víðar að sú skattstefna sem rekin var á síðasta kjörtímabili mundi hvetja til aukinnar svartrar atvinnustarfsemi, þ.e. þegar við förum yfir sársaukaþröskuld í skattlagningu og í samspili skattlagningar og bótakerfis þá minnkar hvatinn til að vinna?

Maður heyrði sögur af vinnustöðum, ekki síst fyrir síðustu kosningar, þar sem fólki bauðst jafnvel að vinna lengri vinnudag og bæta á sig aukavinnu til að geta aflað sér hærri launa. En fólk vildi bara ekki standa í því. Þetta fór allt í skatt, öll viðbótin, og þá er farið að kalla eftir því hvort þetta fólk sé tilbúið að vinna svart. Barnabæturnar lækka, vaxtabæturnar lækka og vaxtaþrepið er þannig að það er ekkert eftir, það tekur því ekki að leggja meira á sig. Það er auðvitað áhyggjuefni að sú atvinnugrein sem hvað hraðast vex í íslensku samfélagi skuli einna helst vera orðuð við þessa svörtu atvinnustarfsemi, ferðaþjónustan. En það eru sögur sem við þekkjum frá þeim löndum þar sem ferðaþjónusta er mjög mikilvæg og stór atvinnugrein. Við því verður að reyna að bregðast í samvinnu við greinina og finna leiðir til lausnar.

Í þessari umræðu hefur gjarnan verið sagt: Skatteftirlit skilar sér og það borgar sig að auka eftirlit við þessar aðstæður. En er það rétta nálgunin á þessu máli að segja bara: Ja, við ætlum að hafa þessa skattstefnu og svo ætlum við bara að auka eftirlitið af því að það skilar sér? Eða þurfum við að snúa okkur að því að leggja áherslu á að komast að rót vandans? Hvar liggur þetta samspil sem skilar hámarksskilum á skatti til samfélagsins sem byggi þá til hvatann til að afla meiri verðmæta, til að skapa meiri verðmæti, og skila því sem samfélaginu ber af því sem fólk aflar?