143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[16:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Þótt hún sé ekki orðin ýkja löng hefur margt komið fram, miklar upplýsingar, fyrst í upphafsræðu hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur, sem ég vil þakka fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga málefni.

Fram hefur komið að um 14 milljarðar kr. skili sér ekki inn í skattheimtuna vegna svartrar atvinnustarfsemi, og vegna bótasvika er talað um tölur á bilinu 2–4 milljarða. Menn náttúrlega eru hér með einhverjar líkindaspár, vita ekki nákvæmlega hve háar upphæðirnar eru en þær eru háar. Það sem við vitum er að sjálfsögðu að fyrirtæki og einstaklingar sem ekki greiða skatta af atvinnustarfsemi sinni eru að hlunnfara ríkissjóð og sveitarsjóði og þar með veikja stoðir velferðarsamfélagsins.

Það er líka rétt, sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir benti á, að með því að greiða ekki skatta þá skekkja fyrirtæki sem slíkt gera samkeppnisstöðu sem bitnar síðan á öðrum atvinnurekstri, þannig að þetta er ranglátt út frá því sjónarhorni einnig.

Það er tvennt sem þarf að gera að mínum dómi. Það þarf að efla skatteftirlit. Reynslan sýnir að fjárfesting hjá ríkisskattstjóra skilar sér í auknum tekjum fyrir ríkið. En síðan þarf að gera annað. Það þarf að efla siðferðið og skilning á þessum málum. Ég velti því fyrir mér hvort skólarnir þurfi ekki að gegna ríkara hlutverki í því efni og þá einnig hugsanlega fjölmiðlarnir. Ég horfi til sjónvarpsins og legg til að það verði skipt út eins og einum ofbeldisþætti á hverju kvöldi til að hafa þar fræðslu um samhengið á milli skatta og velferðar. (Forseti hringir.) Það sæi ekki högg á vatni, það væri nóg blóðbaðið þrátt fyrir það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)