143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[16:08]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu, finnst hún hafa verið gagnleg og ég vona að hún fari fram sem oftast og sem víðast. Við náðum nú ekki einu sinni að ræða mál sem mér finnst líka mjög áhugavert sem snýr að innheimtu sekta og sakarkostnaðar. Staðreyndin er reyndar sú að mjög lítið hlutfall sekta vegna skattalagabrota innheimtist en ég hef átt orðastað við hæstv. innanríkisráðherra um þau mál og ég veit að stjórnvöld eru meðvituð um það og eru að vinna í að bæta úr.

Ég held reyndar að viðhorfsbreyting þurfi að verða. Það er ekki ásættanlegt að við búum í þjóðfélagi þar sem liggur við að fólk segi frá því upphátt ef það svíkur undan skatti eða nær einhverju út úr kerfinu. Það á ekki að vera þannig. Við eigum líka að geta rætt þessi mál þannig að ekki sé verið að núa manni því um nasir að maður sé að gagnrýna bótaþega ef maður gagnrýnir bótasvik. Það er mikilvægt að peningarnir séu í þessum sjóðum til þess að þeir sem þurfa á þeim að halda og eiga rétt á þeim geti notið þeirra.

Það hefur komið aðeins fram í umræðunni, sem getur verið rétt, að passa þurfi upp á að ekki séu hvatar til svartrar atvinnustarfsemi, en ég er nú reyndar þeirrar skoðunar að annaðhvort sé fólk bara heiðarlegt eða ekki. Auðvitað er þetta samt eitthvað sem þarf að skoða. Það má kannski segja að það að verkefninu Allir vinna, sem hv. þm. Silja Dögg benti á, er haldið áfram bendi til þess. Því er haldið fram að eitthvað hafi verið um svarta atvinnustarfsemi í byggingariðnaði en með því að endurgreiða virðisaukaskattinn séum við á réttri leið með það.

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn að nefna aðrar þingmenn fullu nafni.)