143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að málefni verslunar skuli vera tekið fyrir í sérstökum umræðum á Alþingi. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga snerist að miklu leyti um að verslun á Íslandi yrði frjáls undir stjórn þess ágæta manns sem hefur hér vökult auga með okkur. Það er út af fyrir sig fróðlegt að fara yfir það hvar við erum stödd núna, 170 árum síðar eða svo.

Einn stærsti útgjaldaþáttur íslenskra heimila er nauðsynjavörur, þ.e. matvara, hreinlætisvörur og þess háttar. Ég ætla af ásettu ráði að tala lítið í þessari umræðu um landbúnaðarafurðir og verðlagningu þeirra. Ég tel að verðlagning landbúnaðarafurða, frjáls innflutningur, tollverð, tollaálagning o.s.frv. sé efni í aðra umræðu sem ég hyggst beita mér fyrir að fari fram. Ég vil frekar fara yfir stöðuna á markaðnum.

Ísland er örmarkaður þar sem saman fer erfið landfræðileg staðsetning, fákeppni, ógagnsæ verðmyndun og máttlaus neytendasamtök. Verðmyndun á neysluvörum er ógagnsæ og í raun er alls ekki hægt að nálgast upplýsingar þar um, þar sem stærstu aðilarnir á markaði eiga allt í senn; heildsölu, birgðastöðvar, kjötvinnslu, smásölu. Áhrifin af því kristallast í niðurstöðum í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá því fyrir um tveimur árum þar sem fram kemur á bls. 49 að á 11 algengum vörum frá innlendum birgjum munaði 24% á verði. Litlir kaupmenn, eins og Verslun Einars Ólafssonar á Akranesi sem nefnd er sérstaklega í skýrslunni, fengu 24% verri kjör heldur en stærsta verslunarkeðja á Íslandi.

Hvernig stærstu verslanirnar skila síðan þessum afsláttum til neytenda eða hvort þær gera það er annað mál og ekki gott um að segja. Síðan er rétt að bæta inn í þessa jöfnu eignarhaldinu á stærstu fyrirtækjunum sem nú eru að hluta á hendi lífeyrissjóða, eða 45% eignaraðild í tilfelli Haga. Arion banki á 15% í viðbót. Maður hlýtur að spyrja sig: Hverjir eru klárir í það að koma inn á þennan markað sem nýir aðilar hafandi þessa sterku eignaraðila á stærstu keðjunum, þessa sterku bakhjarla?

Stærsta verslunarfyrirtækið á Íslandi, Hagar, hefur um 50% markaðshlutdeild á landsvísu, en 60% á stærsta markaðnum, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. Nú er það fjarri mér að finna að því að vel rekin fyrirtæki skili hagnaði. Það er fjarri mér. Mig langar samt að geta þess að EBITDA-hagnaður fyrirtækisins á síðasta heila starfsári þess var um 5 milljarðar, hagnaður eftir skatta rétt tæpir 3 milljarðar. Tölur níu mánaða uppgjörs núverandi starfsárs eru enn þá betri. Þetta fyrirtæki bauðst til þess um daginn að lækka verð á 600 vörutegundum um 2,5% á sama tíma og íslenska krónan hefur styrkst gagnvart helstu markaðsmyntum um 10%, minnst um 6,1% milli danskrar krónu og evru, mest 33% á móti yeni.

Nú er svo komið að næststærsta keðjan var seld um daginn. Hverjir eru kaupendurnir? Jú, það er bankasjóður, lífeyrissjóðir og nokkrir fjárfestar. Ef þau kaup ganga eftir verða 75% af allri smásöluverslun í landinu á hendi eins eða skyldra aðila, 85% á því svæði sem við búum á hér. Það verður sem sagt til, herra forseti, Matvöruverslun Íslands hf.

Ef spretta eiga upp einokunarkaupmenn aftur, í þetta sinn ekki Hansen og Jensen, heldur íslenskir aðilar með þátttöku lífeyrissjóða, söfnunarsjóða íslenskra erfiðismanna, sem gera 3,5% ávöxtunarkröfu hvar sem þeir koma, þá finnst mér það válegt, herra forseti. Mér finnst þetta mjög válegt.

Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi áhyggjur af þeirri auknu samþjöppun sem lítur út fyrir að sé að verða á íslenskum smásölumarkaði. Og hvort hann telji ástæðu til og hyggist jafnvel beita sér fyrir því samkvæmt ákvæði samkeppnislaga að stærstu fyrirtækjum á fákeppnismarkaði sé skipt upp sé ákveðnu markaðshlutfalli náð.