143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir að brjóta ísinn að því sem ég ætlaði einmitt að tala um. Við getum talað hér á tveimur mínútum um krónuna og innflutningskostnað og peningastefnuna og verðtrygginguna en eftir stendur að það er annað menningarlegt vandamál í gangi á Íslandi sem er hegðun íslensku þjóðarinnar gagnvart peningum og verðlagi.

Íslendingar almennt spyrja ekki um verð. Ef þeir fá að vita verðið og þeim blöskrar kaupa þeir vöruna samt, telja sig ókurteisa ef þeir hætta við, telja sig níska, móðga kaupmanninn og koma ekki aftur á staðinn. Þannig er það. Það er vandamál sem við leysum ekki á Alþingi. Við leysum það með almennri umræðu um peninga vegna þess að hvað sem okkur finnst um peninga og hagkerfið og peningastefnuna og Seðlabankann og evruna og allt þetta — ef við ætlum að hafa skynsamlegt verð á Íslandi fer það eftir ákveðnum mekanisma, eftir ákveðnu ferli sem er kallað framboð og eftirspurn.

Ef við berum ekki virðingu fyrir peningunum mun hagkerfið ekki bera virðingu fyrir því hvað við viljum meira en hitt. En við getum ekki sagt sjálf til um það hvað af þessu við viljum meira en annað, hvers vegna í ósköpunum ætti verðlagið að hlusta á hvað okkur finnst? Þetta er ekki alvöruspurning. Það ætti ekki að gera það og það gerir það ekki.

Þetta kemur best fram þegar kemur að strætó, það er reyndar Reykjavíkurlúxus. Fólk kvartar og kvartar undan háu bensínverði og ef maður spyr hvort það hafi hvarflað að einhverjum að hætta að kaupa bensín og fara frekar að nota strætó er svarið: Nei. Þá kemur í ljós að fólk er í skóla, það er í vinnu, það á börn. Er fólk ekki í skóla erlendis? Er fólk ekki í vinnu erlendis? Á fólk ekki börn erlendis? Í strætó? Ég hef búið erlendis, í tveimur löndum. Svarið er: Jú, fólk notar strætó þrátt fyrir það.

Hér virðist það mikið til vera ákveðið snobb að nota ekki strætó og nota frekar bíl vegna þess að fólk fílar sig sem svo mikilvægt að það þurfi að vera á bíl. Gott og vel ef fólk vill hafa lúxus en þá á það að viðurkenna að það sé lúxus, ekki þörf.