143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að vekja ítrekað athygli á þessu máli hér í þingsal. Það er líkt með mér og honum að þegar ég undirbjó þetta innlegg mitt hafði ég ekki hugsað mér að tala um landbúnaðarvörurnar. Þegar hann nefndi það hins vegar sérstaklega að hann ætlaði ekki að gera það, er það náttúrlega nokkuð furðulegt að ætla að ræða verðlag á Íslandi án þess að taka landbúnaðarvörurnar með. En ég er sammála þingmanninum um að það er efni í sérstaka umræðu.

Ég er líka sammála hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um að það sé sannarlega ánægjulegt ef í það verður ráðist að grisja vörugjöld og önnur gjöld. Það hafa allir viljað gera í mörg ár. Það verður mjög ánægjulegt ef það er gert. Auðvitað er það hluti af því að halda vöruverði háu.

Ég held hins vegar að við þurfum kannski frekar að tala um hvernig staðið er að verslunarrekstri hér á landi. Þá vil ég til dæmis nefna matvöruverslunina. Það er alveg ljóst að þar fer ýmis kostnaður út í verðlagið. Af hverju í ósköpunum, og þá tek ég undir með þingmönnum sem hafa talað hér á undan, fer fólk í búðir sem hafa opið allan sólarhringinn? Það er alveg ljóst að það hlýtur að fara út í vöruverðið. Þar eru neytendurnir sem eiga að vera verðlagseftirlitið en ekki boð og bönn. Við verðum að gera kröfur til okkar sem fólks, (Forseti hringir.) og þá er ég ekki að tala sem þingmaður, heldur verðum við að gera kröfu til okkar (Forseti hringir.) sem neytendur.

Þetta var nú ákaflega stuttur ræðutími, herra forseti. (Gripið fram í.)

(Forseti (EKG): Tvær mínútur eru jafnlangar hjá öllum þingmönnum.)