143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Já, það er rétt sem kemur fram að stærsta og flóknasta viðfangsefni efnahagsmálanna er hvernig við afnemum höftin. Vissulega er það svo að þrotabú hinna föllnu banka eða fjármálafyrirtækin í slitameðferð eru mjög stór hluti vandans þar sem þar eru háar fjárhæðir í íslenskum eignum sem líklegt þykir að muni vilja leita til erlendra eigenda sinna þegar slitunum lýkur. Það mun mynda þrýsting á gengið.

Þegar rætt er um samninga við kröfuhafana verður að horfa til þess að það er ekki íslenska ríkið sem skuldar þá fjármuni, skuldar kröfuhöfunum þær kröfur sem eru undirliggjandi, heldur er allt forræði á búunum í höndum stjórna slitafélaganna. Það hafa verið samskipti við stjórnirnar, slitastjórnirnar, af hálfu Seðlabankans. Ég hef einnig fundað með að minnsta kosti tveimur ef ekki þremur slitastjórnum í ráðuneyti mínu þar sem þeir hafa farið yfir stöðuna frá sér séð, en það er ekki hægt að stilla málunum þannig upp að það þurfi að eiga sér stað samningar eða samningaviðræður við stjórnvöld á meðan þeir sem fara með félögin í slitameðferð ná ekki árangri í slitameðferðinni. Það er þeirra að ná nauðasamningi sín í milli og leggja hann fyrir kröfuhafana, fá hann samþykktan og hér hefur kannski fyrst og fremst strandað á því að þeim félögum tækist að ljúka samningum sem líklegir eru til þess að ganga upp með hliðsjón af þeim gjaldeyrishöftum sem eru í gildi í landinu.