143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Nú er ég orðinn svolítið ringlaður á þessu. Ég taldi og tel enn að það skipti svolítið miklu máli hvað ríkisvaldið gerir í þessu umhverfi. Það eru gjaldeyrishöft í landinu. Liggja fyrir einhverjar áætlanir um hvernig á að afnema þau? Talað var um að erlendir kröfuhafar mundu gefa afslátt af kröfum sínum og þá væntanlega gera það gegn því að sjá einhverja áætlun um hvernig þeir geta losað þá fjármuni sem þeir þó eiga eftir afsláttinn úr landi. Það lýtur að stjórnvaldsaðgerðum, er það ekki? Einnig var talað um að hugsanlega yrði skattlagning af hálfu hins opinbera hluti af einhvers konar heildarlausn á þessu. Það er stjórnvaldsaðgerð.

Ríkisvaldið þarf á einhverjum tímapunkti í þessu flókna viðfangsefni að sýna á spilin sín, er það ekki? Hvort sem það kallast samningaviðræður eða ekki þurfa greinilega viðræður að fara fram og það eru tíðindi fyrir mér að formenn ríkisstjórnarflokkanna álíta það ekki (Forseti hringir.) hlutverk sitt að fara í slíkar viðræður.