143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

kjarasamningar og verðlagshækkanir.

[10:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin var beðin um að láta ekki fólkið í hátekjuþrepinu njóta fyrst og fremst skattalækkana heldur hækka persónuafsláttinn um 1 þús. kr. Ríkisstjórnin sagði nei.

Ríkisstjórnin var beðin um að halda aftur af verðlags- og gjaldahækkunum að fordæmi Reykjavíkurborgar. Ríkisstjórnin svaraði því með 20% hækkun á komugjöldum á heilsugæslu, 25% hækkun á skólagjöldum og öðrum álíka gáfulegum útspilum í verðlags- og gjaldamálum.

Spurningin nú er einfaldlega sú þegar búið er að fella kjarasamninga í fjölmörgum stéttarfélögum: Sér ríkisstjórnin að sér og skilur hún að hún þarf að senda fólkinu í landinu skilaboð um það að hér sé skilningur á kjörum lægst launaða fólksins í landinu og á nauðsyn þess að halda aftur af verðbólgu í stað þess að fara fram með tuga prósenta gjaldahækkanir á viðkvæmum tímum?