143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

kjarasamningar og verðlagshækkanir.

[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki hér í ræðustól að taka þátt í einhvers konar samningaviðræðum við almenna markaðinn. Það er ekki mitt hlutverk og ríkið er ekki beinn aðili að þessum kjaraviðræðum.

Ég einfaldlega bendi á að hátekjuskattsþrepið hélst óbreytt við síðustu skattbreytingar ríkisstjórnarinnar. Það er rangt að eitthvert sérstakt átak hafi verið í gangi til að lækka skatta á hátekjufólkið. Það sem við gerðum var að við lækkuðum skattþrepið í miðþrepinu þar sem rúmlega 80% allra launþega greiða skatta. Við hækkuðum líka viðmiðið í lægsta þrepinu en við þurfum að hafa í huga að ríkið tekur engan tekjuskatt til sín eftir að laun hafa náð 235 þús. kr. markinu, engan, þannig að það er ekkert við ríkið að semja um tekjuskattslækkun í sjálfu sér nema ríkið ætli þá að taka að sér að skila enn frekara hlutfalli til sveitarfélaganna. (Forseti hringir.) Þá væri nær að beina slíkum kröfum beint til þeirra.

Það sem gerðist var að ekki fékkst staðfestur samningur sem forusta stéttarfélaganna, launþegahreyfingarinnar, annars vegar og forusta atvinnuhreyfingarinnar hins vegar höfðu náð saman um. Það er það sem gerðist, það var ekki ríkisstjórnin sem brást.