143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

lánshæfismat og traust.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem ég er að benda á er einfaldlega þetta: Það er engin ástæða til að hlaupa á eftir gífuryrðum einstakra aðila, jafnvel þótt í alþjóðlegum fjölmiðlum sé að finna. Það er engin ástæða til þess. Tölurnar tala sínu máli. (BjG: Já, lestu …) Þegar við erum með hallalaus fjárlög, þegar við sjáum íslensku fjármálafyrirtækin sem eru að fara út á markað fá sífellt betri kjör, þegar við sjáum jafn sterka viðleitni og birtist hjá aðilum vinnumarkaðarins til að leggjast á árarnar við að ná tökum á verðbólgunni, og ég vil sérstaklega lofa það átak sem þar hefur átt sér stað, sjáum við að allir stóru mikilvægu mælikvarðarnir sýna okkur þróun í rétta átt.

Á síðasta kjörtímabili var þessu þveröfugt farið. Þar var staðan á vinnumarkaði stanslaust í uppnámi, við vorum með allt frá fiskveiðistjórnarkerfinu til stjórnarskrárinnar í fullkominni óvissu. Nú eru þessir hlutir að róast. (Forseti hringir.) Það skiptir máli að pólitískur stöðugleiki er að komast á til að styðja við þessa efnahagsþróun, þannig að fullyrðingin um að hér sé einhver efnahagslegur óstöðugleiki eða þróun í ranga átt á einfaldlega ekki við rök að styðjast. (Gripið fram í: Hallelúja.)