143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

vetrarólympíuleikarnir í Rússlandi.

[11:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Fram undan eru vetrarólympíuleikar í Rússlandi sem hafa valdið miklum usla hjá þeim sem láta sig mannréttindi varða. Þau hafa lýst áhyggjum yfir þeim lögum sem hafa verið samþykkt í Dúmunni gegn samkynhneigðum áróðri sem hefur valdið skefjalausu ofbeldi og ofsóknum í garð hinsegin fólks í Rússlandi. Fólk á yfir höfði sér sektir og fangelsisdóma og margir lýsa áhyggjum af stöðu hinsegin fólks og almennum ofsóknum í garð stjórnarandstæðinga í Rússlandi.

Það má segja að þetta sé það alvarlegt ástand að þjóðarleiðtogar á borð við forseta og varaforseta Bandaríkjanna, forseta Frakklands og forseta Þýskalands hafa lýst því yfir að þeir muni ekki mæta á Ólympíuleikana. Hins vegar má lesa um það á íslenskum miðlum að íslenski menntamálaráðherrann, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson, ætli að vera viðstaddur Ólympíuleikana.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt, hvort hann hyggist fara á Ólympíuleikana í Rússlandi og ef svo er hvort hann hyggist gagnrýna mannréttindabrot í Rússlandi í heimsókn sinni og með hvaða hætti hann ætli að koma þeirri gagnrýni á framfæri.