143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

vetrarólympíuleikarnir í Rússlandi.

[11:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég vil byrja á því að taka undir áhyggjur hv. þingmanns af stöðu hinsegin fólks í Rússlandi og stöðu mannréttindamála þar almennt. Það er augljóst að þar er víða pottur brotinn og óþarfi að lengja þá umræðu.

Hvað varðar þá ákvörðun að heimsækja Sochi meðan á Ólympíuleikunum stendur fylgi ég að mestu leyti fordæmi kollega minna á Norðurlöndum. Þeir munu allir nema Finnarnir vera búnir að ákveða að fara á Ólympíuleikana, á mismunandi tíma þó, sumir ætla sér að vera við lokaathöfnina og aðrir við upphafið o.s.frv.

Ég er og hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé varhugavert að tengja Ólympíuleikana um of við stjórnmál. Það er þó matsatriði í hvert sinn. Almennt ætti auðvitað að gæta þess að halda ekki Ólympíuleika í löndum þar sem menn telja ástæðu til að ætla að menn geti ekki sótt þá af pólitískum ástæðum. En það var mat mitt, m.a. eftir að hafa skoðað hver afstaða kollega minna á Norðurlöndum væri, að ég mundi sækja þessa Ólympíuleika heim.

Ég mun að sjálfsögðu, fái ég til þess tækifæri, koma sjónarmiðum mínum á framfæri hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi hér og spurði um, hvort ég mundi lýsa afstöðu minni til þeirra mannréttindabrota sem sannarlega eru stunduð þarna. Afstaða mín mun koma fram fái ég til þess tækifæri. Ég er ekki alveg klár á því hvort slíkt tækifæri mun gefast en verði svo mun ég reyna að gera það.