143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

vetrarólympíuleikarnir í Rússlandi.

[11:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hefði talið heppilegra að hæstv. ráðherra færi ekki. Það er þó umdeilanlegt. Hæstv. ráðherra tekur undir orð formanns afreks- og ólympíusviðs ÍSÍ, sem segir að ekki eigi að tengja íþróttir og stjórnmál. Hitt er annað mál að hæstv. ráðherra fer þangað sem stjórnmálamaður þannig að tengingin við stjórnmál er augljós. Það gagnast valdhöfum í Rússlandi að fá myndir af ráðamönnum annarra þjóða sem samþykkja þar með stefnu rússneskra stjórnvalda. Það þýðir ekki fyrir þjóð sem telur sig vilja verja mannréttindi hinsegin fólks jafnt sem annarra að ráðherra fari í jafnsymbólíska heimsókn og þessa og lýsi því yfir að hann muni, ef færi gefst, koma á framfæri mótmælum.

Samtökin 78 á Íslandi hafa kallað eftir mótmælum íslenskra stjórnvalda (Forseti hringir.) og að þau beiti rússnesk stjórnvöld þrýstingi. Ef ráðherra, herra forseti, ætlar á annað borð (Forseti hringir.) á Ólympíuleikana ber honum skylda til að mínu mati að koma á framfæri (Forseti hringir.) alvarlegum mótmælum við mannréttindabrotum sem nú tíðkast í Rússlandi.