143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

viðvera íslenskra ráðherra á vetrarólympíuleikunum.

[11:07]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Herra forseti. Í framhaldi af fyrirspurn hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur taldi ég rétt að koma hér upp og segja frá því að ég hef líka í hyggju að fara á Ólympíuleikana í Rússlandi, mun þiggja það boð frá fötluðum íþróttamönnum og fylgjast með keppni og væntanlega þá lokaathöfninni.

Ég vil líka taka fram að það þýðir á engan hátt að ég sé að samþykkja þá stefnu sem rússneska ríkisstjórnin hefur haft gagnvart samkynhneigðum og ég hef komið á framfæri athugasemdum við rússneska sendiherrann þegar hann heimsótti mig ekki fyrir löngu. Ég hef líka upplýst Samtökin '78 um þá ákvörðun að fara og vonast til þess, eins og kom fram í samtali við þau, að þó að þau hefðu kannski kosið að maður hefði tekið aðra afstöðu að þá hafa þau sjálf ekki verið að hvetja til þess að menn færu ekki, heldur að menn kæmu á framfæri mótmælum og ég hef í hyggju að gera það áfram.