143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

viðvera íslenskra ráðherra á vetrarólympíuleikunum.

[11:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta það svigrúm sem hann gefur fyrir þessa umræðu þó að hún sé undir liðnum um fundarstjórn forseta. Ég reikna ekki með að það sé fordæmisgefandi.

Ég vil hafa þetta alveg á hreinu: Af því að sérstaklega var spurt að því hvort ég mundi koma á framfæri mótmælum í þessari ferð, þá er það nákvæmlega þannig eins og hv. þingmaður nefndi, að það er erfitt að koma slíku fyrir úr einhverri skíðabrekku eða á áhorfendasvæði. Það þarf þá að vera einhvers konar fundur eða einhvers staðar tækifæri til þess. Það er síðan annað hvað menn geta gert hér heima áður en þeir fara í slíka ferð, rétt eins og t.d. hæstv. ráðherra nefndi, með fundum með sendiherrum og öðru slíku, það er svo annað mál. Ég vildi að það kæmi skýrt fram.