143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

viðvera íslenskra ráðherra á vetrarólympíuleikunum.

[11:11]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta kærlega fyrir það umburðarlyndi sem hann sýnir. Ég taldi mikilvægt að koma þessum upplýsingum á framfæri við þingið, að hér væri ekki aðeins um að ræða menntamálaráðherra heldur hefði félags- og húsnæðismálaráðherra tekið sambærilega ákvörðun.

Ég var einmitt spurð að því þegar ég upplýsti Samtökin '78 um að ég hefði í hyggju að fara af hverju ég teldi rétt að fara og mitt svar var að ég er ekki aðeins að huga að málefnum hinsegin fólks, ég hef líka málaflokk sem snýr að fötluðu fólki og boð hafði komið frá fötluðum íþróttamönnum sem hafa lagt mikið á sig til að komast á Ólympíuleikana og vilja taka þátt. Ég taldi því rétt að mæta en þegar ég fékk tækifæri til að eiga fund með rússneska sendiherranum kom ég athugasemdum við þetta á framfæri. Ég virði að sjálfsögðu skoðanir annarra þingmanna, eins og hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, hvað þetta varðar.

Ég er líka samstarfsráðherra Norðurlandanna og er núna í formennsku fyrir norrænu ráðherranefndina og talsverð samskipti við Rússland tengjast því. Ég veit ekki til þess að annars staðar á Norðurlöndum hafi verið íhugað að slíta til dæmis stjórnmálasambandi við Rússland þó að gera megi athugasemd við ýmislegt hvað snýr að mannréttindamálum og stjórnarháttum í því landi.