143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp hér. Ég held að það sé mikilvægt að við fáum skýringar á því hvernig hæstv. menntamálaráðherra ætlar að vinna að málum hvað varðar framhaldsskólann.

Það er gríðarlega mikilvægt að sú vinna sé þannig unnin að áfram verði sátt um framhaldsskólakerfið, þetta er ekki vettvangur sem maður á að tæta í sundur í pólitískum deilum. Það er ástæða til að hafa áhyggjur, þetta er einn af þeim málaflokkum, svipað og ýmsir aðrir, þar sem maður spyr sjálfan sig spurninga eftir að við höfðum staðið í blóðugum niðurskurði, svo að við orðum þetta bara eins og það var, við erfiðar aðstæður til að endurreisa íslenskt samfélag. Við sjáum batamerki og þá koma menn hér hver á fætur öðrum á vegum ríkisstjórnarinnar og segja: Þið hafið nánast ekkert gert, það þarf að gera miklu meira í niðurskurð.

Þetta eru skilaboðin sem er verið að gefa út í þetta samfélag, til samneyslunnar, til hópanna sem eru að vinna hér á lökustu kjörunum við uppeldis- og heilbrigðis- og umönnunarstörf, á sama tíma og meira og minna viðskiptaheimurinn og þeir sem meira hafa eru byrjaðir að raka til sín aftur fé. Er það þetta sem við ætlum að standa á bak við? Er það þetta sem þingheimurinn flytur sem skilaboð út í samfélagið?

Ég vil ekki vera þátttakandi í því. Okkur tókst að auka jöfnuð, ætlum við að taka þátt í því að tæta samfélagið upp í aukinn ójöfnuð í framhaldinu með þeim afleiðingum sem því fylgja?

Um þetta snýst þetta. Af því að við erum að ræða um hvítbók — erum við að fara að sjá gæluverkefni ráðherra eða erum við að fá fram í sameiginlegri umræðu hvaða þættir það eru sem helst þurfa að koma fram í umræðunni og sem við þurfum að taka á sameiginlega? Það eru alltaf næg verkefni, það er ýmislegt sem þarf að skoða, ýmislegt sem má laga, en væri ekki gaman ef við fengjum nú tækifæri til að skilgreina það sameiginlega?

Það gefur ákveðna von þegar hæstv. ráðherra segir að hvítbókin eigi bara að vera hugmyndabanki. Þannig hafa hvítbækur ekki verið hugsaðar hingað til eða það orð í mínum huga haft þá merkingu, (Forseti hringir.) en ég kem kannski betur að því síðar.