143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:29]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu. Ég vil byrja á að segja að það er mín staðfasta skoðun að stytta megi meðalnámstíma frá upphafi grunnskóla til loka framhaldsskóla til hagsbóta fyrir nemendur. Auðvitað skiptir skipulag skólastarfs máli en líka viðhorf og metnaður samfélagsins.

Mig langar að koma inn á tvennt af fjölmörgu sem ég tel að þurfi að huga að við þá vinnu sem nú stendur yfir varðandi framtíðarskipan skólastarfs. Annars vegar langar mig að ræða um verknám á framhaldsskólastigi sem er og verður sennilega enn þá mikilvægara. Það er mikilvægt að horfa á þarfir nemenda sem fara í verknám óháð bóknáminu, þ.e. við megum ekki ákveða fyrir fram í þessari umræðu að raða verknáminu inn í sömu kassana og bóknáminu. Verknám er krefjandi, það þarf sérhæfða aðstöðu og það þarf áhugasama nemendur og starfsmenn. Því miður endurspeglar fjármagn til verknáms og ásókn í það ekki þær áherslur sem við viljum hafa. Það þarf að breyta viðhorfum en ég er líka sannfærð um að breyta þarf skipulagi. Verum óhrædd við að ræða nýjar leiðir í verknámi.

Hitt atriðið sem mig langar að koma inn á eru þarfir mismunandi byggða og að útiloka ekki eina leið í skipan skólastarfs af því að hún hentar ekki um land allt, þ.e. að huga að mismunandi leiðum. Getur breytt skipulag skapað nýjar leiðir og ný tækifæri? Gætum við stefnt að því að öll börn geti stundað nám til 18 ára aldurs í heimabyggð?

Metnaður skiptir öllu máli því að í skólastarfið þarf að leggja metnað. Stjórnvöld þurfa að búa til umgjörð um skólastarfið þar sem starfsfólk og nemendur geta lagt metnað í vinnu sína á hvaða stigi og sviði sem er þannig að hver og einn geti sinnt sínum metnaði (Forseti hringir.) á sínum forsendum.