143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við erum að ræða um framhaldsskólann. Hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson hefur hug á því, trúi ég, að auka valfrelsi sem er lykilatriði þegar kemur því sem verður kjarnafærni þegar við horfum til framtíðar. Ef við horfum til kjarnafærni næstu 10–20 ára bendir rannsókn frá Oxford háskóla á síðasta ári til þess að um 47% starfa verði undir, þ.e. að þau verði úrelt. Endurskoðendur munu til dæmis heyra sögunni til á næstu 20 árum. Þetta eru alls konar störf sem hægt er að láta tölvur vinna í ríkari mæli vegna þess að þær eru að verða klárari og hafa gríðarlega mikinn aðgang að upplýsingum.

Leigubílstjórar munu heyra sögunni til á næstu 20 árum samkvæmt þessari rannsókn. Hjá Google eru þeir byrjaðir að keyra tölvustýrða bíla um götur Kaliforníu. Þessa þurfum við að horfa til.

Hvað bendir til að verði kjarnafærni þegar horft er til framtíðar? Það er sköpun. Þeir sem nýta þekkingu sína sem nýtist samhliða því sem tölvurnar taka yfir, þannig að það er sköpun. Tölvurnar eru ekki nógu góðar til að taka yfir sköpun á næstu 20–30 árum. Þær eru ekki heldur góðar í að taka yfir stjórnun, stjórnunarstörf né geta þær sýnt sjálfstæði, frumkvæði, þær hafa ekki stjórnunareiginleika.

Þegar við horfum til framhaldsskólanáms í dag er mikilvægt að horfa til þess að ef við aukum valfrelsi nemendanna nýtum við krafta þeirra. Við nýtum sjálfstæði þeirra, við styrkjum frumkvæði þeirra og forvitni. Fólk lærir líka betur það sem því finnst skipta máli, það sem það velur sjálft (Forseti hringir.) og þannig getum við styrkt kjarnafærni sem er nauðsynleg fyrir störf og velmegun í framtíðinni.