143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Svandísi Svavarsdóttur, fyrir þessa umræðu. Það er eiginlega sorglegt að fá bara tvær mínútur til að tala í svo risavöxnu máli sem framhaldsskólinn og skólakerfið okkar er í heild sinni. Ég ætla rétt að reyna að stikla á stóru því að ég tel að full ástæða sé til þess að skoða skólakerfið okkar og sjá hvernig við getum bætt það og gert það skilvirkara. Ég kem innan úr þessu kerfi og starfaði áður en ég kom hér inn á þing sem náms- og starfsráðgjafi í menntaskóla þannig að ég þekki það nú svolítið innan frá líka.

Auðvitað eigum við að máta okkur við það sem best gerist í menntamálum og styrkja það nám sem boðið er upp á. Við eigum á hverjum tíma að athuga inntak og gæði náms á öllum skólastigum. Við verðum líka að sjálfsögðu að fylgjast með því hvernig fjármunum til menntamála er best varið og ef við getum veitt sambærilega eða betri menntun á skemmri tíma þá eigum við auðvitað að gera það.

Hér hefur verið farið inn á skýrslu sem unnin var um styttingu námsins. Ég velti því fyrir mér að þar er að mestu leyti horft á bóknámið, ég hef ekki séð rök fyrir því hvernig iðn- og verknámið og starfsnámið fer út úr þessu. Mér finnst það nú eiginlega bara vera skilið eftir og spurningum ekki svarað. Síðan hefur verið rætt um brotthvarf, þar kemur fram að stytting dragi úr því, sem ég er ekki sammála, því að mér finnst fullyrðingin ekki rökstudd og ég er ekki ein um það að vera ekki sátt við það.

Mig langar, af því að hæstv. ráðherra kom mjög lítið inn á kjör kennara, að spyrja hversu mörgum prósentum fækkun stöðugilda nemur að hans mati við þessa styttingu og hversu mikið sparast í krónutölu. Hefur hann rætt eitthvað við sveitarfélögin því að hann hefur jú líka rætt um styttingu grunnskólans í þessu samhengi?

Að mínu viti stendur upp úr að faglega umræðan um styttingu er varla byrjuð og fyrst og fremst hefur verið horft á kerfisbreytinguna. Hún er framkvæmanleg, við vitum það, bæði áfangaskólar og bekkjarskólar geta það. En það eru í raun engin haldbær rök. Hvað með inntak námsins þar sem engin stefna hefur verið mótuð þegar kemur að þessu eða hefur það verið rannsakað? (Forseti hringir.) Eða þá að gefa sér tíma til og setja fjármuni í að leyfa hinni nýju (Forseti hringir.) skólastefnu sem sett var hér á síðasta kjörtímabili að þróast. (Forseti hringir.) En til þess þarf aukna fjármuni.