143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:36]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér málefni framhaldsskólans og ég vil þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að taka það mál upp. Framhaldsskólinn okkar er mjög mikilvæg stofnun og hann hefur verið undir niðurskurði í mörg herrans ár. Það var reyndar þannig á síðasta kjörtímabili að ítrekað var bent á af hálfu skólamanna þá að Finnar hefðu á krepputíma farið þá leið að styrkja framhaldsskólann. Framhaldsskólinn á Íslandi er í þeirri stöðu að af öllum skólastigum er lagt minnst fjármagn á nemanda á ársgrunni til þeirra stofnana. Við erum með tölur sem sýna okkur að grunnskólar, leikskólar og háskólar eru með og hafa að jafnaði verið með um 1.200 þúsund á nemanda á ársgrunni meðan framhaldsskólinn var með um 800 þúsund kr. á ársgrunni. Auðvitað veltir framhaldsskólinn og þeir sem þar starfa því fyrir sér hvernig stendur á því að sú staða er uppi.

Það er ýmislegt sem maður vildi geta sagt hérna en það er alveg ljóst að aðbúnaður þarf að batna og fjárlaganefnd sem var að störfum þetta haust lagði á það alla áherslu að ekki yrði skorið niður í framhaldsskólanum og það tókst. Það var lögð áhersla á að verðbætur héldu sér og að þær hækkanir sem þó höfðu orðið væru ekki teknar til baka.

Ég mundi gjarnan vilja taka ýmislegt fleira fyrir, m.a. styttingu, laun og lestur, og mig langar að koma því aðeins að að lestrarkunnátta er náttúrlega mjög mikil undirstaða fyrir allt nám á hvaða stigi sem er. (Forseti hringir.) Ég var að koma af þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn og þar eru Danir núna að fara af stað með átak til þess að (Forseti hringir.) auka læsi nemenda.