143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:41]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og fagna allri umræðu um skólamál. Mig langaði í því samhengi að hér ræðum við um framhaldsskólann að vekja athygli á því að það er alltaf mikilvægt að horfa á öll skólastigin í einu þegar við erum að tala um kerfisbreytingar á borð við styttingu náms. Skólakerfið er fyrir nemendurna. Við þekkjum öll myndina af litlum púka með tösku á bakinu sem segist vera að fara í vinnuna. Skólinn er vinnustaður nemenda frá tveggja ára aldri í dag og alveg fram undir tvítugt, í 18 ár, leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli. Það er mikilvægt að við horfum á þetta í samfellu.

Ég minni þingmenn á mjög góða rannsókn og vinnu sem kom út á bók um skil skólastiga eftir dr. Gerði G. Óskarsdóttur árið 2012. Í rannsókninni var skoðuð færsla nemenda frá leikskóla yfir í grunnskóla og svo aftur frá grunnskóla yfir í framhaldsskóla. Þar kom ítrekað fram að nemendur voru að fara aftur yfir sama efnið. Skólastigin virtust ekki skiptast á upplýsingum um nemendurna, voru jafnvel ekki í samtali um hvað væri búið að kenna nemandanum.

Brottfall er eitt af stóru vandamálunum hjá okkur á Íslandi, brottfall úr framhaldsskóla. Maður spyr sig: Af hverju verður brottfall svona almennt? Af hverju hættir maður í einhverju? Er það ekki af því að maður hættir að sjá árangur af því og maður fær leiða á því? Getur ekki verið að það að fara aftur og aftur yfir sama hlutinn á löngum vetrarnóttum ár eftir ár sé ekki næg hvatning fyrir nemendur okkar? Þurfum við ekki að hugsa þetta heildstætt?