143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

málefni framhaldsskólans.

[11:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að mörgu leyti ágæta umræðu. Þó er, eins og kom fram í máli ráðherrans, töluvert sem stendur út af og sem hann náði ekki að svara í ræðu sinni. Mig langar sérstaklega að víkja umræðunni að inntaki menntunarinnar, fjölbreytni, sveigjanleika og vali, sem var leiðarstef í áherslum flokkssystur hans, þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Það sem ég þykist merkja hjá ráðherranum hér er fókus á grunngreinar og kjarna, einföldun kerfisins. Mér finnst að ráðherrann þurfi að svara þessu skýrt: Hver er staða iðn- og verknámsins? Hver er staða list- og verkgreina? Hver er staða sveigjanleikans og hins lifandi og opna framhaldsskóla?

Vegna umræðunnar hér um styttingu er afar mikilvægt að við höldum því til haga hversu margar stundir fara í raun frá upphafi til loka framhaldsskólans til kennslu, hversu margar klukkustundir eru til kennslu í heild? Það dugar ekki að horfa bara á almanaksárið þegar ungmennið byrjar og svo almanaksárið þegar ungmennið lýkur sínu námi.

Þetta eru í raun og veru ótrúlega sambærilegar tölur ef við berum saman Ísland, Danmörku og Svíþjóð til að mynda, þó að kennslutímanum sé þjappað á færri ár. Það er því afskaplega mikil einföldun að tala bara um styttingu sisvona.

Virðulegi forseti. Ráðherrann verður að svara því hvort hann telji að það þurfi að leiðrétta launakjör framhaldsskólakennara. Það er ekki hægt, eins og einhverjir hv. þingmenn hér hafa nefnt, að taka umræðuna um launakjör í framhaldsskólunum út fyrir sviga. Það er slíkur grundvallarþáttur í starfi framhaldsskólans, starfsumhverfi og möguleikanum til þróunar námskrár, þróunar kennslu o.s.frv. (Forseti hringir.) og yfir höfuð stöðu framhaldsskólans inn í framtíðina. Þessu verður hæstv. ráðherra að svara.