143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[12:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held alls ekki að mér hafi misheyrst, ég held að hv. framsögumanni hafi hins vegar skjöplast skriðið eftir sinni eigin tungu. En það skiptir engu máli, aðalatriðið er að ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé fyrir embættið að hafa svigrúm og tök á því að geta tekið sér þetta sjálfstæða frumkvæði. Það var reyndar það sem menn ræddu í upphafi að yrði þróunin. Öll embætti sem eru sett á laggir þurfa tíma, það þurfa að skapast hefðir og „ritual“ í kringum þau, þau þurfa að skapa sér sess í samtímanum og það hefur embættið sannarlega gert. Auðvitað hefur farsæl starfsemi þess leitt til þess að það hefur verið meiri ásókn í embættið af hálfu borgaranna og það kann að hafa leitt til þess að menn eru þar stöðugt önnum kafnir. Það eru í vaxandi mæli flókin mál sem til þess koma en ég held að mikilvægt sé að gera embættinu bæði kleift og skylt í ríkari mæli að taka sér sjálfstætt frumkvæði.

Í þau örfáu skipti sem ég hef orðið var við að það hafi gerst hefur það vakið hræringar í samtímanum og það hefur skipt máli. Það er alveg klárt að ef embættið tekur í vaxandi mæli upp þannig hlutverk er það í sjálfu sér mjög sterkt aðhald að framkvæmdarvaldinu. Framkvæmdarvaldið þarf alltaf aðhald.

Mig langar því að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson, framsögumann málsins, hvort það kunni að vera leið til þess að tryggja að embættið sinni því í ríkari mæli að tiltekinn partur af fjárveitingu sem til þess fer í framtíðinni sé auðkenndur með þeim hætti að hann eigi að fara í sjálfstæða frumkvæðisvinnu af hálfu embættisins. Ég tel sjálfur að það sé mikilvægt að menn skoði það til framtíðar með þróun embættisins í huga til að bæta það enn frekar.