143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[12:11]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það kemur alveg til álita. Það skortir í rauninni ekki á lagaheimildir fyrir embættið og ekki heldur vilja hjá embættinu til að ráðast í frumkvæðismál. Það má vel vera að einhver breyting á lögum gæti orðið til að styrkja embættið í þessu efni og það er alveg sjálfsagt að skoða það. En við skoðuðum þennan kost í umfjöllun okkar, hvort fara ætti í einhverja slíka aðgreiningu og niðurstaðan er sú að þótt frumkvæðismálin séu góð og gagnleg er það samt svo að þeir borgarar sem leita til embættisins ætlast til þess að fá úrlausn sinna efna. (ÖS: Þeir fá það alltaf.) Já, já, þá þarf að vera fjárveiting fyrir hendi. Það þarf að vera mannafli til að sinna þessu, til að vinna þetta af einhverju viti.

Ég nefndi leiðir sem embættið hefur farið og fer nú þegar til að gera afgreiðsluna markvissari en þá hugsanlega á kostnað vinnslu málsins, að stytta greinargerðir og röksemdir og stytta þann tíma sem fer í einstök mál. En höfuðáhersluna viljum við engu að síður leggja á að borgararnir, þeir sem leita til embættisins, fái niðurstöðu í sín mál. Það hlýtur að vera forgangsatriði nr. 1, 2 og 3, að tryggja það. Síðan kemur dagur eftir þennan dag og það koma fjárlög eftir þessi fjárlög (Gripið fram í.) og þá þurfum við að halda vöku okkar.