143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[12:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég segi það alveg hreinskilnislega að ég tel að embætti umboðsmanns Alþingis sé eitt af mikilvægustu embættum landsins. Það er náttúrlega erfitt að flokka embætti eftir mikilvægi þeirra, en ég ætla að orða það þannig að embætti umboðsmanns Alþingis sé uppáhaldsembættið mitt. Ég held að það stuðli að og hafi stuðlað að miklum breytingum í viðhorfi stjórnvalda til almennings í landinu og hafi ýtt við embættismönnum og þeim sem eiga að þjóna fólkinu í landinu þannig að þeir sinni störfum sínum betur en þeir hefðu gert ef embættið væri ekki til.

Nú er það svo með embætti umboðsmanns Alþingis að þegar hrunið varð fyrir fimm árum gerist það um leið að fjöldi mála sem berast til embættisins eykst gífurlega, þannig að um leið og umboðsmaður þarf að skera niður, eins og ríkisapparatið allt, eykst málafjöldinn mjög. Engu að síður hefur umboðsmaður á þessum árum alltaf verið innan þeirra þröngu fjárheimilda sem hann hefur haft og það verður ekki sagt um allar ríkisstofnanir eða alla starfsemi á vegum ríkisins.

Á árinu 2013 fékk embættið 20 millj. kr. aukafjárveitingu, eins og það var kallað á þeim tíma þegar fjárlög voru samþykkt fyrir árið 2013, vegna hins aukna málafjölda sem var hjá embættinu. Embættið fór fram á að fá aftur 20 milljónir fyrir þetta ár, 2014. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að forsætisnefnd þingsins hafi mælt með því, ég veit að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mælti með því að embættið fengi þær 20 milljónir sem beðið var um en það var skorið niður um helming. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig stóð á því að ekki var hægt að verða við þeirri beiðni. Þótt ég viti að það sé náttúrlega ekki hægt að verða við öllum beiðnum finnst mér að stundum verði líka að horfa til þess sem er að gerast í kringum okkur þegar skorið er niður á þennan hátt, eins og í þessu tilfelli hér, og sérstaklega vegna þess, sem hefur verið rætt hérna áður, að þegar málafjöldi eykst svona hjá umboðsmanni verður hann að forgangsraða.

Umboðsmaður ákveður að forgangsraða á þann hátt að allur sá fjöldi fólks sem leitar til hans, hann fær yfir 500 mál inn til sín á ári, að miklu máli skipti að það fólk fái úrlausn mála sinna. Hann forgangsraðar með því að svara frekar einstökum beiðnum og fækkar á móti frumkvæðismálum vegna þess, ég held að það sé rétt munað hjá mér, að á árum áður voru frumkvæðismálin sex, sjö á ári, eitthvað svoleiðis. Umboðsmaður hefur forgangsraðað á þann hátt að fækka frumkvæðismálum og ég ætla að segja það alveg hreint út að ég er sammála þeirri forgangsröðun, ég er alveg sammála henni. Það þýðir ekki að það sé ekki nauðsynlegt að við útvegum meiri peninga til embættisins til þess að hægt sé að fara í frumkvæðismál vegna þess að frumkvæðismálin eru annars eðlis. Það má segja að þau séu kerfislægari og þess vegna kannski ekki þess eðlis að það komi einn borgari eða ein manneskja og kæri akkúrat vegna þess. Það má segja að frumkvæðismálin séu meira kerfisgallar sem umboðsmaður og starfsmenn hans sjá í kerfinu. Þetta eru ekki neinar gífurlegar fjárhæðir sem farið er fram á til þess að geta sinnt þeim betur og mér finnst leitt að ekki var orðið við því núna. Hins vegar er ég ekki sammála því að Alþingi eigi að segja að þessi hluti fari í frumkvæðismál og hinn í annað, það á að vera í höndum umboðsmannsins. Það er nauðsynlegt að við tryggjum þessa peninga.

Það er annað sem mig langar til að nefna í sambandi við það sem umboðsmaður nefndi við okkur og það á við úrskurðarnefndir. Hann nefnir að þeir sem eru skipaðir í úrskurðarnefndir séu oft lögmenn sem eru vanari því að vera í einkamálum en að fást við stjórnsýslulögin og það þurfi þess vegna að gera þeim lögmönnum sem sitja í úrskurðarnefndum að þekkja stjórnsýslulögin betur. Hann nefnir líka að stjórnsýslan bregðist stundum þannig við umkvörtunarefnum og ákærum að hún taki málin eins og þau séu einkamál en ekki þannig að stjórnsýslunni beri að virða rétt borgarans. Ef borgarinn kvartar þarf hann ekki að sýna fram á eða sanna að stjórnsýslan hafi ekki farið að lögum. Munurinn á því hvernig annars vegar stjórnsýslulögin eru og hins vegar einkamálarétturinn finnst mér, ólöglærðri manneskju, skipta miklu máli og þurfa að innprenta embættismönnum okkar og þeim sem starfa með stjórnsýslulögin það.

Mig langar að nefna að boðaðar hafa verið breytingar á lögum um umboðsmann Alþingis. Ég hélt að það hefði átt að gerast fyrr á árinu en þær hafa ekki komið enn. Ég bíð eftir því að nýtt frumvarp komi fram. Lögin eru 20 ára gömul og 20 ár eru svolítið langur tími, þótt sumum finnist þau líða hratt eru 20 ár langur tími og ég held að nauðsynlegt sé að endurskoða lögin. Það þarf ekkert endilega að umbylta þeim en ég tel að nauðsynlegt sé að endurskoða þau.

Ég vil líka taka undir að það er mjög ánægjulegt sem hefur komið fram að hvað varðar viðbrögð við álitum umboðsmanns bregst stjórnsýslan yfirleitt alltaf við þeim. Það eru þó undantekningar á því að svo sé og til dæmis skrifaði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf til innanríkisráðuneytisins í desember sl. vegna þess að okkur barst kvörtun um að innanríkisráðuneytið hefði ekki svarað og orðið við tilmælum frá umboðsmanni. Nú er komið í ljós að eftir þetta bréf hefur innanríkisráðuneytið tekið þetta ákveðna mál upp aftur, sem er mjög ánægjulegt. Það sýnir líka að nauðsynlegt er að hafa það verkfæri sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er, þannig að þingið geti áfram rekið á eftir ef ekki er farið að tilmælum umboðsmanns, og mér finnst í rauninni algjörlega forkastanlegt þegar ráðuneyti eða stjórnvöld leyfa sér að gera slíkt.

Ég held að ég hafi farið yfir helstu punkta sem eru í þessu og segi enn og aftur að ég held að þetta sé eitt af mikilsverðustu embættum landsins og við eigum að hlúa að því eins og við mest og best getum.