143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[12:33]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012. Farið hefur verið mjög ítarlega yfir málefnið enda er álitið sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, fór yfir áðan ítarlegt og yfirgripsmikið. Það er líka full ástæða til að taka þessa ágætu skýrslu fyrir í ítarlegu áliti eins og gert hefur verið og fjalla um hana hér á Alþingi.

Mig langar að byrja á því að koma inn á hlutverkið og vitna, með leyfi forseta, í reglur um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Þar segir:

„Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að gæta þess að stjórnvöld virði rétt einstaklinga og samtaka þeirra. Hann hefur í því skyni eftirlit með því að jafnræði sé virt í stjórnsýslustörfum og að stjórnsýsla sé að öðru leyti í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.“

Þessi 1. gr. endurspeglar hið gríðarlega mikilvæga hlutverk sem umboðsmaður Alþingis hefur og eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna, meðal annars hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, hefur embættið sannað gildi sitt í samfélagi okkar.

Eins og fram hefur komið má lesa í þróun fjölda mála, sem kemur fram í tölfræði með nefndaráliti og í þeirri tölfræði sem er í skýrslunni, að umboðsmaður Alþingis tekur fyrir rúmlega 500 mál. Það varð stökkbreyting hér 2011. Hann hefur því þurft að forgangsraða í störfum sínum, vegna þess að fjármagnið hefur ekki fylgt þessari gríðarlegu fjölgun mála. Umboðsmaður gerir mjög vel grein fyrir því hvernig hann nýtir þá fjármuni sem hann fær. Forgangsröðunin kom niður á frumkvæði til að taka upp mál og því að sinna frumkvæðisskyldunni, það er miður. Það hefur fengið fína umfjöllun hér.

Mig langar að koma inn á þann lið sem snýr að frumkvæðinu og fá að vitna í álitið, með leyfi forseta. Þar segir:

„Með frumkvæðiseftirliti er umboðsmanni unnt að taka ákveðið mál til meðferðar, málsmeðferð til almennrar athugunar eða starfsemi stjórnvalds t.d. með eftirlitsferðum. Með því getur umboðsmaður stuðlað að almennum umbótum í stjórnsýslunni án þess að vera með tiltekið mál einstaklings eða lögaðila til meðferðar …“

Þetta er gríðarlega mikilvægt vegna þess að fram kemur að nánast daglega koma upp mál sem gefa umboðsmanni tilefni til að velta því fyrir sér hvort borgararnir fái notið þeirra réttinda sem þeim er ákveðið með lögum. Það er afskaplega mikilvægt að umboðsmaður geti þannig sinnt þessari frumkvæðisskyldu.

Þá hefur einnig verið rætt um það hlutverk umboðsmanns sem snýr að því að leiðbeina borgurum og stofnunum. Mig langar að bera niður í nefndarálitinu, með leyfi forseta, þar sem vel er greint frá þessari leiðbeiningarskyldu:

„Í þessu sambandi má einnig nefna að í skýrslunni bendir hann [umboðsmaður] á í tengslum við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, að þó leiðbeiningar séu almennar þurfi að veita þeim sem eftir því leita einstaklingsbundnar leiðbeiningar og einnig að stjórnvaldi geti borið að eigin frumkvæði að leiðbeina aðila ef hann þarf augljóslega á því að halda. Það á ekki síst við þegar tekin hefur verið íþyngjandi ákvörðun en einstaklingur á kost á öðrum úrræðum sem kunna að gera stöðu hans betri en ella. Markmiðið ætti ávallt að vera að koma í veg fyrir að hagsmunir málsaðilans skerðist vegna vankunnáttu hans eða mistaka. Því ríkari sem hagsmunirnir eru, því meiri kröfur eru gerðar til stjórnvalda að þessu leyti …“

Nefndin tekur síðan undir mikilvægi þess að starfsfólk stjórnsýslunnar sé meðvitað um þessa frumkvæðisskyldu sína og telur að hér sé nauðsynlegt að fá gott kennsluefni.

Ég vildi koma þessu hér sérstaklega að. Þetta tengist því sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, kom hér vel inn á í framsögu að styrkja og styðja þennan þátt.

Þetta er það sem ég vildi draga fram í nefndarálitinu og taka undir þá umræðu sem farið hefur fram. Umræðan er mjög gagnleg vegna þess að embættið er, eins og ég kom inn á í upphafi gagnvart hlutverki umboðsmanns, gríðarlega mikilvægt og á skilið þessa ítarlegu umræðu.