143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 164/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

275. mál
[13:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get eiginlega ekki á mér setið því það er svo sjaldan sem þeir sitja báðir í þessum sal, hinn ágæti hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason. Ég verð að koma hér og óska þeim til hamingju því að með sameinuðu átaki, frá því að Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu held ég að segja megi, hefur aldrei verið jafn stórkostlegur gangur í að moka í gegnum þingið og utanríkismálanefnd aðlögunartilskipunum að Evrópusambandinu og undir þeirra ágætu handleiðslu. Reyndar vil ég segja það, herra forseti, að mér gest vel að þeirri handleiðslu. Eins og bæði hæstv. utanríkisráðherra og umræddur þingmaður vita segi ég já og amen í hvert skipti sem þeir koma og biðja um að flýta einhverjum af þeim ágætu tilskipunum.

Hér er hæstv. ráðherra, með tilstyrk hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, að koma í gegn einni af þeim 18 tilskipunum sem er að finna á verkefnalista hæstv. utanríkisráðherra. Ég var stundum ánægður með sjálfan mig þegar ég var í þeim stól yfir því hvað þetta gekk vel, en eftir að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kom til liðsinnis við ráðuneytið hefur aldrei verið jafn rosalegur hraði.

Ég vil því ekki reyna að stöðva þetta, en ég hnaut um eitt. Báðir þessir hv. þingmenn og ráðherra voru stundum að reyna að segja við mig þegar menn voru að fara hér í gegn með einhver mál að þau væru óþarfi, það þyrfti ekkert að gera og til hvers væri þá verið að taka þau í gegn. Lykilatriðið í máli hæstv. ráðherra var þetta: Hann sagði að ekki þyrfti að breyta neinum lögum vegna þess að sú þjónusta sem er veitt hérlendis á því sviði sem málið tekur til uppfylli þegar þau gæða- og öryggisviðmið sem tilskipunin kveður á um. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Til hvers í ósköpunum er verið að taka þetta í gegn?