143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 164/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

275. mál
[13:36]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Syndugur maður er ég og hef margt unnið sem vísast kallar á einhvers konar refsingar. En ég hef ekkert gert sem er svo svakalegt að það kalli á þetta. [Hlátur í þingsal.]

Herra forseti. Ég þarf ekki einu sinni heilabú hæstv. utanríkisráðherra til þess að lesa, það hef ég getað gert til þessa dags. Hafi ég hugsanlega misskilið eitthvað í orðum hæstv. ráðherra þá stendur hér svart á hvítu, og kemur væntanlega frá fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, að hvorki sé gert ráð fyrir því að þessi breyting hafi nokkur áhrif á kerfið né heldur að hún kosti neitt. Hvers vegna? Jú, vegna þess, með leyfi hæstv. forseta, að „sú þjónusta sem er veitt hérlendis á þessu sviði uppfyllir nú þegar þau gæða- og öryggisviðmið sem tilskipunin kveður á um“.

Með öðrum orðum. Hæstv. ráðherra er að draga í gegnum þingið, með aðstoð hv. þingmanns, mál sem segir bókstaflega í textanum að sé engin þörf fyrir. Hvers vegna? Ég spyr sérstaklega þessa tvo hv. þingmenn og hæstv. ráðherra um þetta. Það geri ég ekki vegna þess að ég sé neitt á móti því að uppfylla þær skuldbindingar sem á okkur eru um að aðlaga okkur, jafnvel út af engu sérstöku tilefni eins og hér er að gerast, heldur vegna þess að þeir vöruðu við því á síðasta kjörtímabili að menn legðust svo lágt og jafnvel niður á hnén í þjónkun við Evrópusambandið að taka hér í gegn pappíra sem jafnvel segir í sjálfu þingmálinu að þurfi ekki vegna öryggis íslenskra borgara.

Á þessu vildi ég gjarnan heyra einhverjar skýringar, sérstaklega frá hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) Ég tek það svo skýrt fram, hæstv. forseti, að ég vil formlega afþakka þá gjöf sem hann vildi gefa mér.(Gripið fram í.)