143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:49]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur nú aðeins fylgst með þá hef ég verið alveg jafn gagnrýnin á mannréttindabrot í Bandaríkjunum og í Kína, eða mannréttindabrot í Ísrael og annars staðar. Okkur ber að mótmæla mannréttindabrotum alls staðar á sem frekastan hátt. Ég hef verið talsmaður þess að ef t.d. bandarísk yfirvöld geta ekki tryggt að ekki sé njósnað um almenning víðs vegar um heim geti þau ekki verið aðili að alþjóðasamþykktum um netmál og netöryggi.

Fyrst við tölum um mannréttindi þá er afskaplega auðvelt að segjast vilja gera vel. Þó svo að komið hafi fram yfirlýsing um að vilji sé til þess að loka þrælabúðum eða þrælafangelsum þá las ég nú frétt um að það sé ekki hægt að gera nema að tryggja — og það þarf að verða mjög mikil hugarfarsbreyting t.d. hjá lögreglunni vegna þess að hún hefur heimildir til þess að gera nákvæmlega það sem á að reyna að breyta. Ég fagna því ef það er umræða um að breyta þessu, að sjálfsögðu, en ég held að það sé ekki út af einhverri frétt í RÚV.

Ég ítreka að ef raunverulegur vilji er til þess að gera eitthvað þá sýnum við það í verki. Ég lenti t.d. í því þegar ég var í utanríkismálanefnd og var að fara á fund í ítalska þinginu til að vinna með öðrum þingmönnum um málefni Tíbets að kínverski sendiherrann reyndi að stöðva mig í að fara í þá ferð. Það þykja mér of mikil afskipti af hegðan og vinnu íslenskra þingmanna.