143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um fullgildingu á fríverslunarsamningi milli Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína. Mér finnst umræðan sem hefur verið hér í dag mjög góð, og þær athugasemdir og áminningar margar sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir kom með í ræðu sinni eru mjög gagnlegar og mikilvægar inn í þessa umræðu. Ég kem meðal annars inn á ýmislegt af því síðar.

Í fyrstu vil ég segja að það er mjög ánægjulegt að við Íslendingar gerum í auknum mæli tvíhliða fríverslunarsamninga og einnig fríverslunarsamninga í samvinnu við hin EFTA-löndin. Ég tel það mjög jákvætt og að við eigum að horfa til fleiri landa. Það er mjög ánægjulegt að vita til þess að vinna við gerð fleiri fríverslunarsamninga er í gangi í utanríkisráðuneytinu, einkum og sér í lagi í samvinnu við hin EFTA-löndin.

Þess misskilnings hefur gætt í umræðunni, maður sér það til dæmis á spjallmiðlum og í tali fólks á milli, að með þessu verði Ísland ef til vill kínversk nýlenda, við förum að sjá uppkaup á landi, auðlindum og öðru slíku. Fríverslunarsamningar eru ekki þess eðlis. Í þeim er kveðið á um það að við erum að versla með vörur og þjónustu milli landa og afléttum tollum og gjöldum af þessum vörum. Það er gríðarlega mikilvægt í þessu öllu að við Íslendingar stöndum vörð um það að við erum ekki að gera þetta í þeim tilgangi og ætlum alls ekki að gera það. Við erum sjálfstæð þjóð sem á mikið undir þeim auðlindum sem hún byggir afkomu sína á og verður áfram að gæta að því að eignarhald, m.a. á landi, sé ekki undir í þessu. Við höfum séð fréttir víða að, m.a. frá Afríku, sem snúa að miklum uppkaupum þar á landi af Kínverjum, Indverjum og aðilum frá fleiri þjóðum.

Mjög mikil sóknarfæri eru fólgin í þessum fríverslunarsamningi. Það má líklega búast við því og er meðal annars komið inn á það í nefndarálitinu að það megi búast við því að fríverslunarsamningur Íslands við Kína gæti opnað á það að einhver fyrirtæki í Evrópu eða Norður-Ameríku sæju hag sinn í því að setja upp einhvers konar fyrirtæki hér sem væru í úrvinnslu eða þjónustu með vörur sem síðan væru fluttar inn á kínverskan markað. Það sem hefur mjög mikið verið að gerast er að markaður fyrir þjónustu og fullunnar vörur hefur opnast í Kína, einmitt vörur sem hugsanlega eru framleiddar hér á landi. Kaupgetan hefur aukist þar mjög mikið og markaður fyrir vörur til innflutnings ekki síður þó að við höfum undanfarin ár fremur séð aukinn innflutning frá Kína til Íslands.

Gríðarlega mikið af vörum er flutt inn frá Kína og millilendir í Evrópu. Margar þeirra bera toll þegar þær koma inn til Evrópusambandsins og eru kannski síðan tollaðar frá Evrópu til Íslands að einhverju leyti. Það getur því verið um tvítollun að ræða eins og kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni þegar hann gerði grein fyrir nefndarálitinu. Það má búast við því að með þessu förum við að sjá mikið af þessum vörum koma beint frá Kína og það er ætlunin að atvinnulífið fylgi þessu eftir og fari að leita eftir því að vörurnar séu keyptar beint af birgjum í Kína. Eins og við vitum er Ísland lítill markaður og hefur í gegnum tíðina oft og tíðum tekið þetta í gegnum Evrópu vegna smæðar sinnar. Líklega mun þetta breytast í ákveðnum vöruflokkum sem fluttir eru inn, m.a. raftækjum, sem mun auðvitað bæta og styrkja samkeppnishæfni landsins til muna.

Gríðarleg sóknarfæri eru líka fólgin í auknum útflutningi frá Íslandi til Kína. Eins og ég sagði áðan er margt að breytast í Kína, þar er að verða til millistétt sem telur 300–400 milljónir, og hún er að fá aukinn kaupmátt. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er þetta þróunin. Þetta kallar á það að það er stóraukinn innflutningur víða að, m.a. frá Suður- og Norður-Ameríku og Evrópu, á matvælum og þjónustu til Kína. Ég hef tekið dæmi um það í tengslum við matvælaframleiðslu, bara svo við tökum eitt lítið dæmi sem við getum síðan heimfært á sjávarafurðir, landbúnaðarafurðir og hvað sem er, að eftirspurn eftir mjólk eykst gríðarlega hratt í Kína. Það er vegna þess að millistéttin sem hefur ekki verið vön að neyta mjólkur er að byrja að drekka mjólk.

Menn spá því að innan 15 ára verði eftirspurn umfram framleiðslu og innflutning mjólkur til Kína í dag. Sá innflutningur sem þegar er mun nema heildarmjólkurframleiðslu Rússlands, Þýskalands, Frakklands og Bandaríkjanna, bara hjá þessu eina landi. Fyrirtæki í matvælaframleiðslu sem Íslendingar eru auðvitað sterkir í, m.a. í sjávarútvegi, eru farin að sjá aukna möguleika til lengri tíma litið í innflutningi sjávarafurða. Við erum þegar farin að sjá þetta í aukaafurðum í landbúnaði sem byrjað er að flytja inn á þennan markað og til lengri tíma eru sóknarfæri fólgin í þessu. Hið sama á við um þekkingariðnaðinn og þjónustuna, til lengri tíma litið eru veruleg sóknarfæri fyrir Íslendinga fólgin í þessu. Þessi fríverslunarsamningur mun ýta undir það og hvetja til þess að þessi markaður verði nýttur.

Annað sem við getum ekki horft fram hjá er að umræðan um norðurslóðir er að verða sterkari, menn eru að byrja að sigla í auknum mæli þessa leið hér á milli. Þeim skipaferðum sem eru um norðurleiðina yfir sumartímann fjölgar gríðarlega á milli ára. Mánuðunum fjölgar sömuleiðis. Hvort sem okkur líkar betur eða verr er samstarf Grænlendinga og Kínverja líka að aukast á sviði ýmissar atvinnuuppbyggingar og auðlindanýtingar. Það mun gerast, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, það er stefna grænlenskra stjórnvalda og Kínverjar hafa sýnt því áhuga. Allt þetta getur og mun leiða til þess að það eru sóknarfæri fyrir Íslendinga til að auka atvinnuuppbyggingu í tengslum við þennan fríverslunarsamning. Við sáum fréttir í vikunni af því að Eimskip undirritaði samstarfs- og viljayfirlýsingu við eitt af stærri skipafélögum heims sem er einmitt kínverskt — ég man nú ekki nafnið á því ágæta félagi — um aukið samstarf í vörusiglingum og vörudreifingu. Þar sjáum við eitt verkefnið sem er þjónustuverkefni sem fólgið væri í því að Eimskip færi þar í samstarf. Það mun ugglaust tengjast inn í þessar norðurslóðir, aukna atvinnuuppbyggingu á Grænlandi o.s.frv. Í þessu felast auðvitað tækifæri fyrir Íslendinga til að fjölga þeim stoðum sem eru undir hagkerfinu á Íslandi.

Auðvitað er rétt sem bent hefur verið á í umræðunni um þætti sem snúa að vinnumarkaðsmálum og mannréttindamálum þegar kemur að Alþýðulýðveldinu Kína. Það er ágætlega rakið í nefndaráliti og var vel farið yfir í hv. utanríkismálanefnd. Ég tek undir með þeim sem hafa lýst því yfir að það sé miklu betra til framfara að vera í samskiptum við ríki, koma málum áleiðis, rétt eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson minntist á áðan. Mikilvægar yfirlýsingar tengjast þessum fríverslunarsamningi og snúa meðal annars að mannréttindamálum. Við eigum alltaf að koma þessum sjónarmiðum og skoðunum á framfæri þegar við erum í samskiptum, eigum fundi og annað slíkt því að dropinn holar steininn og þetta hefur áhrif.

Við þurfum ekkert að fara langt, við þurfum ekki einu sinni að fara út fyrir Evrópu og ekkert mjög langt aftur í tímann, til að benda á mannréttindabrot. Ég vil meina, það er mín skoðun og margra sem hafa fjallað um þau mál, að aukin viðskipti innan Evrópu á sínum tíma hafi dregið jafnt og þétt úr þessu og ýtt undir sterkari stöðu mannréttindamála og annarra þátta sem þeim tengjast.

Það er rétt og hefur komið fram hér í umræðunni um vinnumarkaðsmál að það kom fram andstaða við málið, m.a. frá ASÍ og BSRB. Fulltrúar þeirra samtaka komu fyrir utanríkismálanefnd og gerðu grein fyrir því. Enn og aftur vil ég segja að ég er þeirrar skoðunar að meðal annars það sem búið er að sammælast um og kemur fram í nefndaráliti og verður vonandi formlega staðfest þegar kemur að þessum málum er mjög mikilvægt.

Margt af því sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir benti hér á og gerði einnig við vinnslu málsins í utanríkismálanefnd eigum við að hafa í huga. Hv. þingmaður nefndi meðal annars Grikkland og hvernig hafnir voru byggðar þar upp og hvernig kínverskar nýlendur eru að byggjast þar sem eru í rauninni algjörlega lokaðar og afmarkaðar og tengjast ekkert grísku hagkerfi. Þetta þurfum við að varast og við getum það með þeim hætti sem settur er fram í fríverslunarsamningum. Það er ekki verið að opna á neitt slíkt, við getum stýrt þessu. Það er einungis um að ræða fríverslunarsamning sem snýr að tollum á vörum og þjónustu en við höfum allt lagalegt vald og munum gera það. Síðan er hægt að bregðast við mörgum þeim hættum sem hv. þingmaður benti á.

Að lokum vil ég bara segja að ég vonast til þess að þetta verði samþykkt á þinginu. Ég tel felast mjög mikil sóknarfæri í þessum fríverslunarsamningi fyrir Ísland og að til lengri tíma litið geti þetta stuðlað að aukinni uppbyggingu og auknum tekjum fyrir íslenskt samfélag. Ég er líka mjög ánægður með þá stefnu að það eigi að leggja aukna áherslu á að gera fríverslunarsamninga við hin ýmsu ríki heims, að sú vinna sé í gangi og að hæstv. ríkisstjórn hafi lagt og muni leggja mikla áherslu á að við förum í auknum mæli að gera fríverslunarsamninga, ýmist sem við beitum okkur fyrir að séu gerðir á grundvelli EFTA eða með tvíhliða fríverslunarsamningum eins og þeim sem um ræðir hér.