143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég talaði um áður er í sjálfu sér alveg hægt að taka tillit til þess rökstuðnings að með því að hafa aðgengi að kínverskum ráðamönnum sé hægt að kvarta yfir mannréttindamálum í Kína. Hins vegar hef ég ekki enn þá fengið svar frá neinum, og þess vegna læt ég reyna á hv. þingmann, við því hvort menn hafi í alvöru ekki áhyggjur af þessum aflsmun, hversu ofboðslega sterkt Kína er gagnvart Íslandi.

Kína er kommúnistaveldi. Kína virkar ekki eins og við gerum hér. Ég velti fyrir mér hvort ég sé með því að standa í pontu núna og nefna það að storka einhverjum viðskiptasamböndum. Ef ég fer í fínt matarboð og þar er fólk sem er með asnalegar skoðanir og ég er kannski með vin minn með mér sem hefur andstæðar skoðanir og hann fer að kvarta við fína fólkið í fína matarboðinu get ég ekki að því gert að mér líður hálfkjánalega, mér líður óþægilega, ég vil ekki eiga þær samræður á þeim vettvangi, ég get ekki að því gert.

Ef ég kem hér í pontu og kvarta yfir mannréttindabrotum og slíku hlýtur Kína að vera alla vega pínulítið illa við það. Við erum ekkert endilega að tala um mannréttindabrot. Við getum verið að tala um einfalda hluti eins og Yasukuni-musterið. Hvað ef við segjum við Kína: Íslandi er alveg sama þótt Kína sé móðgað yfir því að forsætisráðherra Japans heimsæki Yasukuni-musterið. Er ég að tefla viðskiptatækifærum í hættu? Ég veit það ekki. Mér finnst mjög óþægilegt að aflsmunur þjóðanna skuli vera svona gríðarlega mikill.

Það hafa átt sér stað mannréttindabrot á Íslandi og þá nefni ég Falun Gong-málið sérstaklega. Það voru ekki einu sinni viðskiptasambönd í hættu þar, það var aðeins opinber heimsókn og íslensk yfirvöld brutu á mannréttindum Íslendinga og útlendinga vegna heimsóknar. Hvað þá þegar við eigum hugsanlega á hættu (Forseti hringir.) að missa alla þessa frábæru hluti í kjölfarið? Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki einhverjar áhyggjur af því.