143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það storki engum viðskiptasamningum eða samböndum milli tveggja fyrirtækja, annað væri á Íslandi og hitt væri í Kína, þó að ég eða hv. þingmaður eða einhver annar hafi sínar skoðanir á málum sem snúa að mannréttindum eða öðru slíku. Þessi samningur er einungis fríverslunarsamningur sem snýr að því að tollar á vörum eru meðal annars lækkaðir, sem auðveldar hlutina fyrirtækjum sem staðsett eru á Íslandi.

Nú tökum við bara dæmi. Fyrirtæki sem staðsett er á Íslandi og ætlar að eiga viðskipti við fyrirtæki sem staðsett er í Kína — slík viðskipti hafa oft og tíðum, eins og staðan er í dag, farið í gegnum fyrirtæki sem staðsett er í Evrópu. Nú ætla þessi fyrirtæki að eiga viðskipti sín á milli, þessi fyrirtæki A og B, með lægri tilkostnaði, lægri tollum, lægri gjöldum. Skoðanir hv. þingmanns og okkar, og það að við komum sjónarmiðum okkar á framfæri, munu ekki hafa áhrif á þá viðskiptasamninga. Ég held að þetta muni fremur hvetja til þess að aðilar tali meira um þessi mál og með tíð og tíma hafi þetta þau áhrif að það kalli á breytingar.

Þess vegna sagði ég hér áðan að sjónarmið okkar allra sem höfum bent á þessi mál í dag eru að hafa og munu hafa áhrif. En við eigum, og það er mín bjargfasta skoðun, að leita eftir því að gera fleiri fríverslunarsamninga við fleiri ríki sem við teljum jákvætt fyrir Ísland, sem hagkerfi, sem þjóð, að auka og efla viðskipti við. Fríverslunarsamningar eru ekki gerðir nema (Forseti hringir.) af þeirri ástæðu. Þeir eru til að auka og efla viðskipti landa á milli og eiga (Forseti hringir.) að geta styrkt bæði löndin.