143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að lítið land eins og Ísland, staðsett þar sem það er staðsett, að við eigum að tryggja okkur fyrir því að verða undir gagnvart stórum löndum, alveg sama hvort það eru viðskiptablokkir eins og Evrópusambandið eða Kína, Bandaríkin, Rússland, Indland, önnur lönd. Þeim mun fleiri fríverslunarsamninga sem við gerum á svipuðum og sambærilegum grunni og við erum að ræða þeim mun víðar dreifum við eggjunum. Við eigum að vera opin fyrir því að gera fríverslunarsamninga við lönd, við ríki, einkum og sér í lagi af þeirri ástæðu að það er okkur gríðarlega mikilvægt að geta horft til fleiri markaða. Það er ekki að ástæðulausu sem mörg lönd horfa til markaða í Asíu. Ég nefni Kína, ég nefni Indland sem EFTA-löndin eru í viðræðum við um fríverslunarsamning. Það er okkur gríðarlega mikilvægt að opna fleiri markaði, hafa fleiri dyr opnar.

Því eigum við að stefna að og það er það sem er ánægjulegt við að við séum að staðfesta þennan fríverslunarsamning. Menn hafa ekkert annað sagt hér varðandi mannréttindamál og vinnumarkaðsmál en að þar eigum við auðvitað að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Það sama gildir þegar við erum í fríverslunarviðræðum við Indland, þar eigum við að koma sjónarmiðum okkar á framfæri. En það á ekki að loka á að fyrirtæki sem staðsett er á Íslandi og fyrirtæki sem staðsett er í Kína geti átt viðskiptaleg tengsl til þess að efla og bæta lífskjör á Íslandi. Það er markmið okkar. Þess vegna eigum við að horfa til þess að gera sem flesta fríverslunarsamninga. Ég vona að þetta sé byrjunin en ekki endirinn á því að við gerum tvíhliða fríverslunarsamninga, ég vona að þeir verði miklu fleiri (Forseti hringir.) og við miklu fleiri lönd vítt og breitt um heiminn.