143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:15]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að ítreka það eigum við að gera fríverslunarsamninga við þau ríki sem meðal annars atvinnulífið kallar eftir og sem við teljum styrkja hagkerfi okkar að eiga aukin viðskipti við. Þeir sem hafa kallað eftir því eru margir í sjávarútvegi. Við skulum horfa á það sem er að gerast með helstu markaði okkar í sjávarútvegi. Verðin eru að falla í Evrópu og það kemur niður á hagkerfinu á Íslandi, það skerðir lífskjör á Íslandi, það minnkar tekjur ríkissjóðs.

Eftirspurn eftir sjávarafurðum er ekki nægilega mikil á mörgum mörkuðum í Evrópu. Þess vegna eru margir í mikilvægustu útflutningsgrein Íslendinga að horfa til annarra markaða, horfa til Suður-Ameríku, Norður-Ameríku, til Asíumarkaða. Það eru meðal annars þeir aðilar sem hafa kallað á aukin bein viðskipti milli sinna fyrirtækja og fyrirtækja, sölufyrirtækja og annarra fyrirtækja, sem staðsett eru í Asíu og vilja selja vörur þar. Það er kannski vegna þess að þar er að verða til millistétt, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við styrkjum uppbyggingu millistéttar í Kína með því að kaupa spjaldtölvur, eins og hv. þingmaður var með áðan, sem eru framleiddar í Kína og síma eins og við erum flest með og eru framleiddir í Kína. Það verður til millistétt sem fær aukinn kaupmátt og vill kaupa þessar afurðir og borgar kannski betra verð en við höfum fengið fyrir vörurnar í Evrópu. Af hverju eigum við ekki að ýta undir það að selja vörurnar beint frá fyrirtækjum hér á landi til fyrirtækja í Asíu án þess að þær þurfi að millilenda einhvers staðar? Ég spyr: Af hverju eigum við ekki að gera það? Í því eru fólgin sóknarfæri fyrir Ísland. Þetta eru fyrirtækin sem hafa þrýst á að samningurinn gangi eftir.

Varðandi það hvort við eigum að bjóða Dalai Lama í opinbera heimsókn held ég að það hljóti (Forseti hringir.) að vera utanríkisráðherra að svara þeirri spurningu en ekki þess sem hér stendur. (Gripið fram í.) Ég væri opinn fyrir því að hitta Dalai Lama … (Gripið fram í.)Ég væri opinn fyrir því að hitta … (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) Má ég klára, virðulegi forseti? Ég væri opinn fyrir því að hitta Dalai Lama (Forseti hringir.) ef hann kæmi hingað til lands, það mundi ekki standa á þeim sem hér stendur.