143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er ánægjulegt að þingmaðurinn hefur áhuga á að hitta Dalai Lama. Mig langar að spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason að því hvort hann sé þá ekki tilbúinn til þess að beita sér fyrir því, þar sem hann er sérstakur aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra, að af þeirri opinberu heimsókn verði og skora jafnframt á hæstv. utanríkisráðherra sem situr hér frammi að beita sér fyrir því að við bjóðum Dalai Lama í opinbera heimsókn til Íslands til að fagna undirskrift þessa samnings og sjáum svo hvort við fáum ekki gríðarlega góð viðbrögð frá vinum okkar í Alþýðulýðveldinu Kína.

Það var athyglisvert að heyra hvaða fyrirtæki þetta eru sem hafa beitt sér hvað mest fyrir því að við gerum samninginn og fá það staðfest. Ég hafði aldrei getað fengið almennilega skýr svör um það í utanríkismálanefnd, og ég skil alveg að fólk sé uggandi yfir sínum hag. Það sem ég vil hvetja þingmenn til að gera, ekki síst hv. þm. Ásmund Einar Daðason, er að skoða hvernig það er með hráafurðir frá löndum sem kínversk yfirvöld hafa gert svona samninga við. Það er ansi mikil hætta á því að þegar við erum komin dýpra inn í samninginn — og ég er ekki að tala um að við verðum þrælakista á morgun, þetta tekur tíma, enda hafa kínversk yfirvöld einatt sýnt að þau hafa mikla þolinmæði — það þarf að tryggja að á endanum verði þetta okkur ekki þannig dragbítur að við verðum í verri málum en við vorum í árið 2008.